Ekið án bílbelta og talað í síma undir stýri

Ekki tala í síma eða senda sms undir stýri
Ekki tala í síma eða senda sms undir stýri mbl.is/Brynjar Gauti

Nær tíundi hver ökumaður í Reykjavík talar í síma án handfrjáls búnaðar og svipað margir nota ekki bílbelti samkvæmt könnunum sem tryggingafélagið VÍS gerði í október.  Kannaðir voru 26.186 bílar og voru 8.5% ökumanna án bílbeltis eða 2.221 og 2.298 bilstjórar töluðu í síma án handfrjáls búnaðar eða 9%.
 
Fylgst var með umferðinni tvisvar í október á fyrirfram ákveðnum stöðum við stofnbrautir og þeir bílar taldir  sem sjá mátti með vissu hver bílbeltanotkun var og hvort ökumaður var að tala í GSM síma án handfrjáls búnaðar eða ekki, samkvæmt fréttatilkynningu.
 
Erlendar rannsóknir sýna að þeir sem tala í síma við akstur eru fjórfalt líklegri en aðrir til að lenda í slysi. Samkvæmt upplýsingum frá Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur notkun síma við akstur átt þátt í bana- og alvarlegum slysum hér á landi.
 
„Árið 2001 voru sett lög hérlendis sem leyfa ökumönnum að tala í síma og aka svo fremi að handfrjáls búnaður sé notaður. Rannsóknir sem gerðar hafa verið síðustu ár sýna að handfrjáls búnaður breytir engu um slysahættu. Það sem eykur hættu á slysum er að athyglin beinist frá akstrinum að samtalinu, fremur en að önnur höndin sé upptekin við að halda símanum upp við eyrað.
 
Rannsóknir sýna að hjá þeim sem tala í síma við akstur lengist stöðvunarvegalengd, ökumenn taka síður eftir skiltum og öðrum skilaboðum í umhverfinu og að  einbeitingarleysinu lýkur ekki um leið og símtalinu, heldur varir áfram í nokkrar mínútur eftir að símtali er slitið," segir í fréttatilkynningu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert