Afhjúpar veikleika flokksins

Dagur B. Eggertsson ávarpar flokksstjórnarfund Samfylkingarinnar
Dagur B. Eggertsson ávarpar flokksstjórnarfund Samfylkingarinnar mbl.is/Eggert

Umbótanefnd Samfylkingarinnar kemst að þeirri meginniðurstöðu í skýrslu sinni að bankahrunið og ríkisstjórnarþátttaka Samfylkingarinnar afhjúpi veikleika í starfi flokksins sem mikilvægt sé að takast á við eigi flokkurinn áfram að gegna leiðandi hlutverki í íslenskum stjórnmálum.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu umbótanefndarinnar sem verður kynnt klukkan 12:30 í dag. Nú stendur yfir flokkstjórnarfundur Samfylkingarinnar á Hótel Loftleiðum þar sem skýrslan verður kynnt.

Ekki ásaka einstaklinga heldur stofnanir

Dagur B. Eggertsson, varaformaður Samfylkingarinnar, segir að það sé algjört lykilatriði að ef flokksmenn ætli að læra og koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig verði að flytja umræðuna frá einstaklingum yfir á stofnanir og ekki síst stjórnmálaflokkana, svo sem Samfylkinguna. 

Stjórnmálamenn komi og fari en flokkurinn og það starf sem þar er unnið ræður úrslitum hvernig til tekst og hvort mistök fortíðarinnar endurtaki sig.

Flokkurinn verði að viðurkenna mistök sín í stað þess að einblína á þá einstaklinga sem voru í forystu Samfylkingarinnar við hrunið, sagði Dagur á fundi flokksstjórnarinnar.

Að sögn Dags var biðin eftir rannsóknarskýrslu Alþingis erfið en biðin hafi verið þess virði. Í kjölfarið hafi umbótanefnd Samfylkingarinnar verið sett á laggirnar en hún skilar skýrslu sinni hér á fundinum. 

Á næstu vikum mun Samfylkingin efna til funda um allt land þar sem tillögur og niðurstöður umbótanefndarinnar verða teknar til umfjöllunar. 

Jafnframt verður opin umræða á vef flokksins. Í framhaldinu verða tillögur um áþreifanlegar aðgerðir og umbætur lagðar fram, fyrir næsta aðalfund flokksins, sem er æðsta vald hans og þar hafa almennir flokksmenn síðasta orðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert