Vilja þjóðaratkvæði

Kristján Þór Júlíusson og Bjarni Benediktsson.
Kristján Þór Júlíusson og Bjarni Benediktsson. mbl.is/Ómar

Kristján Þór Júlíusson, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd, telur eðlilegt að verða við óskum um að Icesave-frumvarpið fari í þjóðaratkvæðagreiðslu, en sú krafa hefur komið fram hjá mörgum aðilum innan Sjálfstæðisflokksins. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, útilokar ekki þann möguleika.

Fram hefur komið hörð gagnrýni á stuðning níu þingmanna Sjálfstæðisflokksins við Icesave-frumvarp ríkisstjórnarinnar, ekki síst á forystu flokksins. Kröfur hafa komið fram um að landsfundi verði flýtt til að endurnýja umboð forystunnar. Sú afstaða kemur meðal annars fram í ályktun stjórnar Varðar, félags ungra sjálfstæðismanna á Akureyri. Þá hafa komið fram kröfur frá sjálfstæðisfélögum um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um gildi Icesave-laga. Stjórn Félags sjálfstæðismanna í Árbæ, Selási, Ártúni og Norðlingaholti tekur undir það í ályktun sem félagið sendi frá sér í gær. „Það er lýðræðisleg krafa að þjóðin eigi lokaorðið eftir að hafa hafnað samningi áður í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Styðja Unni Brá

Stjórn Sjálfstæðisfélagsins Kára í Rangarþingi eystra samþykkti ályktun í gærkvöldi þar sem lýst er yfir fullum stuðningi við afstöðu Unnar Brár Konráðsdóttur um að greiða atkvæði gegn Icesave-samningunum og því beint til þingmanna Sjálfstæðisflokksins að sjá til þess að samningurinn verði borinn undir atkvæði þjóðarinnar.

Allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins studdu tillögu um að efnt yrði til þjóðaratkvæðagreiðslu við lokaafgreiðslu Icesave-frumvarpsins í lok árs 2009. Tillagan var felld en síðan vísaði forseti Íslands málinu til þjóðarinnar sem felldi lögin úr gildi.

„Þetta er ekki ný hugmynd. Hún verður væntanlega til umræðu á Alþingi. Ég hef ekki útilokað hana,“ segir Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, um hugsanlega þjóðaratkvæðagreiðslu. Kristján Þór Júlíusson, fulltrúi í fjárlaganefnd, gengur lengra. „Ég tel eðlilegt og sjálfsagt að verða við þeim óskum sem fram hafa komið um að málið gangi til þjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir hann og ítrekar að lokaákvörðun í málinu eigi að vera hjá þjóðinni. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert