Um 85% ánægðir með þjónustu Strætó

mbl.is/Hag

Ríflega átta af hverjum tíu sem ferðast með strætisvögnum Strætó bs. eru ánægðir með þjónustuna. Þetta er megin niðurstaða árlegs þjónustumats, sem framkvæmt var meðal strætisvagnafarþega fyrir skömmu.

Ánægjan með þjónustu Strætó er svipuð nú og árið á undan en þá hafði ánægjan hins vegar aukist umtalsvert frá árinu þar áður. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Strætó bs.

Tekið er fram að í könnunni sé verið að mæla ánægju með ýmislegt sem viðkomi þjónustunni við farþega í viðkomandi ferð. Ekki hafi verið spurt um strætisvagnakerfið í heild.

Fram kemur að á meðal helstu niðurstaðna könnunarinnar sé að 84,4% strætisvagnafarþega hafi annað hvort ánægðir eða mjög ánægðir með strætisvagnaferðina.

Séu nokkrir þeirra einstöku þátta skoðaðir sem mældir hafi verið, megi nefna að um 71% farþega hafi verið ánægðir eða mjög ánægðir með aksturslagið, en nokkuð fleiri, eða um 78%, hafi verið ánægðir eða mjög ánægðir með viðmót vagnstjóranna. Þá hafi um 71% strætisvagnafarþega verið ánægðir eða mjög ánægðir með stundvísi vagnanna.

Fleiri Íslendingar nota strætó

Þá segir að auk þess að mæla ánægju farþega í strætisvögnum Strætó hafi verið kannað hver tilgangur ferðarinnar hafi verið, hve oft viðkomandi noti strætisvagna, aldursdreifing farþega, kynjaskipting, þjóðerni og fleira.

Niðurstöður úr þessum þáttum séu einnig nokkuð svipaðar og frá árinu á undan þótt ákveðin þróun sé merkjanleg. Konur hafi verið bæði árin lítið eitt fleiri en karlar meðal farþega, og næstum því tveir af hverjum þremur farþegum séu undir 35 ára að aldri. Athygli veki að nokkur fækkun sé í hópi útlendinga í strætó milli ára, úr 12,8% farþega í 7,2% nú. Þrátt fyrir þessa fækkun sýni mælingar á farþegafjölda hjá Strætó aukningu á farþegum milli ára, sem þýði að Íslendingum sem noti strætó hefur fjölgað umtalsvert síðustu misseri.
 
„Við erum að sjálfsögðu ánægð með að langstærstur hluti farþega virðist vera ánægður með þjónustuna  sem þeir fá hjá Strætó. Þessi mæling nú sýnir ákveðinn stöðugleika milli ára, en síðustu tvær mælingar sýna meiri ánægju en nokkuð annað ár frá stofnun Strætó bs. En það er alltaf tækifæri til að bæta sig og kannanir eins og þessi nýtast best til þess að sjá hvar við getum gert betur,“ segir Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó, í tilkynningu.


Úrtakið í þjónustumatinu var um 650 farþegar Strætó. Þátttakendur fylltu út eyðublað með spurningum þar sem spurt er um þá þjónustu sem þeir fá í viðkomandi ferð auk þess sem kallað er eftir almennum athugasemdum svarenda um þjónustu Strætó. Þórhallur Örn Guðlaugsson, dósent í viðskiptafræði við Háskóla Íslands, sá um úrvinnslu gagna.

mbl.is

Bloggað um fréttina