„Kom vel út úr öllum prófum“

Guðmundur Felix Grétarsson.
Guðmundur Felix Grétarsson. mbl/Sighvatur Sighvatur Ómar Kristinsson

Guðmundur Felix Grétarsson, sem missti báða handleggi rétt fyrir neðan axlir í vinnuslysi árið 1998, fór í lok janúar til Frakklands í vikulanga undirbúningsrannsókn til að fá úr því skorið hvort hann geti gengist undir handaágræðslu. Guðmundur kom heim fyrir tveimur vikum og hefur síðan þá beðið með eftirvæntingu eftir svörum. Í morgun barst honum jákvæður tölvupóstur frá læknateyminu.

„Það var haldinn fundur á föstudaginn þar sem flestir voru sammála um það að svona aðgerð gæti gert mér hellings gagn. Ég kom vel út úr öllum prófum, en áður en að endanleg ákvörðun verður tekin vilja þeir fá mig út í fleiri rannsóknir,“ segir Guðmundur sem svaraði póstinum um hæl og lét vita að hann væri reiðubúinn að fara til Frakklands sem fyrst.

Að sögn Guðmundar mun hann gangast undir rannsóknir í þrjá daga, en í síðustu lotu var hann í stöðugum rannsóknum frá morgni til kvölds og varð því að dvelja á sjúkrahúsi.

„Ég þarf ekki að leggjast inn á sjúkrahúsið aftur og get verið á hóteli,“ segir Guðmundur og bætir við að það sé töluvert lægri kostnaður þar sem hver sólarhringur á sjúkrahúsi kostar 200 þúsund krónur. Yfirskurðlæknirinn mun fara skref fyrir skref yfir ferlið með Guðmundi og tjáir honum við hverju megi búast. Einnig mun Guðmundur fara í segulómun af öxlunum, hitta axlasérfræðing og iðjuþjálfa svo eitthvað sé nefnt. 

Aðspurður segist Guðmundur vera bjartsýnn. „Jú ég verð að vera það. Ég væri ekki kominn hingað ef ég væri ekki bjartsýnn. Ég er að fara í þetta.“

Frekar handleggi en jeppa

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert