Evran vandamál en ekki lausn

Jonas Sjöstedt
Jonas Sjöstedt

Evran er hluti af vandamálinu en ekki hluti af lausninni á efnahagskreppunni í Evrópu. Kreppan er ekki aðeins efnahagslegs eðlis heldur er hún einnig af pólitískum toga. Þetta segir sænski þingmaðurinn Jonas Sjöstedt.

Sjöstedt beitti sér í þjóðaratkvæðagreiðslunni um aðild að Evrópusambandinu árið 1994 og aftur þegar Svíar höfnuðu evru tæpum áratug síðar. Hann var Evrópuþingmaður í ellefu ár og situr nú í utanríkisnefnd ríkisdagsins og Evrópunefndar þingsins fyrir Vinstriflokkinn. Hélt hann fyrirlestur á vegum Heimssýnar í dag.

Hann segir efnahagskreppuna einnig vera stjórnmálakreppu og þá dýpstu sem Evrópusambandið hafi lent í. Sumir telji að kreppunni sé lokið en hann segir það vera rangt og vísar til ástandsins í Portúgal og Spáni máli sínu til stuðnings.

Kerfislægt ójafnvægi

Undirliggjandi vandamál á evrusvæðinu sé frekari útskýring á kreppunni umfram skuldastöðu einstakra ríkja og útskýra einnig hvers vegna svo erfitt sé að komast upp úr henni.

„Það er djúpstætt ójafnvægi á evrusvæðinu. Svæðið þróaðist mjög mismunandi þrátt fyrir að hafa sömu mynt og stýrivexti. Allt aðrar aðstæður eru til dæmis í Grikklandi en í Þýskalandi. Suðurhluti evrusvæðisins getur ekki keppt við lönd eins og Þýskaland, Danmörku og Austurríki. Ójafnvægið hefur vaxið og er kerfislægt,“ segir Sjöstedt.

Kreppan tengist því evrunni sjálfri því hún sé byggð á einum vöxtum og einu gengi. Sambandið sé fast í vandamálinu því ekki sé hægt að láta gengið fljóta eða gengisfella. Þess vegna muni vandamálið halda áfram. Þrátt fyrir að lausn finnist á skuldamálum sem nú eru uppi eins og í Írlandi og Grikklandi þá verði þetta ójafnvægi ennþá til staðar.

Ef lönd sem eru í erfiðleikum geta ekki breytt gengi gjaldmiðla sinna þurfi þau að breyta framleiðslukostnaði sínum, til dæmis með uppsögnum og það sé pólitískt óvinsælt.

Spyr Sjöstedt hvers vegna menn horfist ekki í augu við að evran hafi verið mistök og deili evrusvæðinu upp að nýju.

mbl.is

Bloggað um fréttina