Byggðastofnun samþykkir ekki Lotnu

Bátnar liggja bundir við bryggju á Flateyri.
Bátnar liggja bundir við bryggju á Flateyri. Halldór Sveinbjörnsson

Stjórn Byggðastofnunar samþykkir ekki kaup Lotnu ehf. á fiskvinnslufyrirtækinu Eyrarodda á Flateyri. Anna Kristín Gunnarsdóttir, stjórnarformaður Byggðastofnunar, segir að ástæðan sé viðskiptasaga eigenda Lotnu. Kristján Kristjánsson hjá Lotnu furðar sig á þessari afgreiðslu.

Byggðastofnun er langstærsti kröfuhafinn í þrotabúi Eyrarodda.

Anna Kristín sagði að stjórn Byggðastofnunar hefði í sjálfu sér ekki þurft að fjalla um þetta mál því að starfsmenn Byggðastofnunar hefðu verið búnir að komast að þessari niðurstöðu áður en stjórnarfundurinn var haldinn.

„Starfsmenn Byggðastofnunar voru búnir að fara yfir málið og því var hafnað af eðlilegum ástæðum. Við horfum þar til viðskiptasögu þeirra og eins hefur þetta ekki verið auglýst,“ sagði Anna Kristín.

Kristján sagðist vera mjög undrandi á þessari afgreiðslu. „Skiptastjóri var búinn að selja okkur húsin með fyrirvara um samþykki Byggðastofnunar og annarra. Byggðastofnun var búin að samþykkja allt, lánakjör, vexti, greiðslutilhögun, mennina og allan gjörninginn með skriflegum hætti. Um viku seinna fáum við upplýsingar um að þeir séu hætti við, en þá vorum við búnir að ráða fólk og byrjaðir að vinna í húsunum. Svona vinnubrögð geta tæplega gengið,“ sagði Kristján. Hann tók fram að aðeins hafi verið eftir að fá endanlegt samþykki Byggðastofnunar.

Kristján sagðist ekki geta svarað því hvort þessi niðurstaða þýddi að fiskvinnsla myndi stöðvast á Flateyri strax eftir helgi.

mbl.is

Bloggað um fréttina