Fréttaskýring: Fangar eru ekki búpeningur

Sjafnarhúsið á Akureyri.
Sjafnarhúsið á Akureyri.

Páll E. Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, er algjörlega andvígur því að nýju fangelsi verði fundinn staður í gamla Sjafnarhúsinu á Akureyri. Í minnisblaði sem hann sendi innanríkisráðherra fyrir skemmstu bendir hann á að fangar eigi rétt á lágmarks mannréttindum og verði ekki „vistaðir sem hver annar búpeningur“.

Í Morgunblaðinu í gær kom fram að eigendur Sjafnarhússins hafa óskað eftir viðræðum við innanríkisráðuneytið um hugsanlega leigu á húsinu undir fangelsi.

„Ég nenni varla að taka þátt í þessari umræðu lengur. Það þarf að standa faglega að þessu og byggja sérhannað fangelsi. Ekki taka í notkun gamla ísbrjóta, gáma eða annað húsnæði langt frá höfuðborgarsvæðinu,“ sagði Páll um þessa hugmynd. Hann benti á að nýbúið væri að endurnýja fangelsið á Akureyri en það gæti tekið á móti öllum föngum af Norðurlandi.

Mikill kostnaður við breytingar

Hugmynd um að nota gamlar vinnubúðir Alcoa á Reyðarfirði sem fangelsi voru kynntar fyrir innanríkisráðuneytinu fyrir skömmu. Af því tilefni sendi Páll minnisblað til innanríkisráðherra þar sem rök gegn því eru tíunduð í tólf liðum en hann sagði að þau ættu að mestu einnig við um Sjafnarhúsið.

Í minnisblaðinu er m.a. bent á kostnað vegna ferða til og frá Austurlandi, að á Austurlandi séu engir menntaðir fangaverðir og ekki liggi fyrir hvort nægilega margir myndu sækjast eftir slíku starfi. Við bætist að flestir lögmenn séu á höfuðborgarsvæðinu en málskostnaðarliður vegna ferða lögmanna myndi margfaldast ef þeir þyrftu að eyða heilu dögunum í ferðalög vegna þjónustu við fanga. Kostnaður við breytingar á eldra húsnæði væri mjög hár og nefndi Páll sem dæmi að áður en Bitra var tekin í notkun sem bráðabirgðafangelsi þurfti að breyta byggingunni fyrir sem svarar einni milljón á hvert fangarými. Páll benti einnig á að um 80% fanga kæmu af höfuðborgarsvæðinu. Það væri mat Fangelsismálastofnunar að það væri gróft brot á mannréttindum fanga ef þeim yrði gert að afplána svo langt frá fjölskyldum sínum. Konur sem eru í afplánun fái margar hverjar börn sín reglulega í heimsókn og í vissum tilvikum feður einnig. Óhægara yrði um vik fyrir barnaverndaryfirvöld að flytja börn reglulega til Reyðarfjarðar til að eiga samvistir við foreldra undir eftirliti. Kostnaður barnaverndaryfirvalda myndi að auki hækka verulega og sömuleiðis kostnaður aðstandenda við heimsóknir. Það væri til þess fallið að minnka samskipti fanga við fjölskyldur sínar, sem gengi þvert gegn markmiðum stofnunarinnar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert