Skora á ríki og borg

Íþróttabandalag Reykjavíkur.
Íþróttabandalag Reykjavíkur.

Tvær áskoranir til ríkisvaldsins voru samþykktar á 45. þingi Íþróttabandalagi Reykjavíkur sem lauk í kvöld. Skorað var á ríkisvaldið að hefja nú þegar stuðning við íþróttafólk sem líklegt er til að komast á Ólympíuleikana í London 2012 sem nemur fullum listamannalaunum.

Þá var einnig skorað á ríkisvaldið að framkvæma sem fyrst könnun á hagrænum áhrifum íþrótta líkt og nýlega var gert fyrir aðrar skapandi greinar. Íþróttafélögin í Reykjavík komu til móts við borgina í efnahagshruninu með því að taka á sig lækkun frá áður gerðum samningum, að því er segir í tilkynningu.

Á þinginu var samþykkt áskorun til borgaryfirvalda um að endurnýja samstarfssamninga við félögin og ÍBR. Þá var skorað á borgina að taka án tafar upp styrki til reksturs íþróttaskóla íþróttafélaganna í yngstu bekkjum grunnskóla og stuðning við afreksíþróttir í gegnum Afreks- og styrktarsjóð Reykjavíkur.

Ingvar Sverrisson var einn í framboði til formanns Íþróttabandalagsins og því sjálfkjörinn til áframhaldandi formennsku.

Vefur ÍBR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert