Endurgreiða hluta af vöxtum

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, kynnir aðgerðir bankans.
Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans, kynnir aðgerðir bankans. mbl.is/Ernir

Landsbankinn hefur ákveðið að endurgreiða 20% af vöxtum lána, sem einstaklingar og heimili greiddu á tímabilinu frá árslokum 2008 til síðustu mánaðamóta.

Vaxtaendurgreiðslan kemur til lækkunar eftirstöðva skulda en ef viðskiptavinur er skuldlaus verður endurgreiðslan lögð inn á innlánsreikning viðkomandi.. Segir bankinn, að endurgreiðsla vaxta af meðalháu húsnæðisláni á þessu tímabili hlaupi á hundruðum þúsunda króna. Endurgreiðslan verður að hámarki 1 milljón króna. Þeir vextir sem þegar hafa verið endurgreiddir koma til frádráttar. Ekki þarf að sækja um endurgreiðslu vaxta.

Landsbankinn er nú að kynna leiðir, sem einstaklingum í viðskiptum við bankann standa til boða til að lækka skuldir sínar. Bankinn áætlar að þær snerti á bilinu 60–70.000 viðskiptavini en skipti verulegu máli fyrir ríflega 30.000 manns.

Bankinn hefur ákveðið að gera tvær breytingar á svokallaðri 110% leið sem miðuð er að þeim viðskiptavinum sem eiga yfirveðsett húsnæði.

Nú verður miðað við fasteignamat á eignum undir 30 milljónum króna en ekki við verðmat. Segir bankinn þetta þýða, að úrvinnsla mála gangi mun hraðar fyrir sig en áður hafi verið og í mörgum tilvikum verði það til að lækka áhvílandi skuldir enn frekar.

Hin breytingin er  sú að aðrar eignir verða alla jafna ekki til að lækka niðurfærslu skulda ólíkt því sem verið hefur. Þetta þýðir að sögn bankans, að margir sem ekki gátu nýtt sér 110% leiðina geti gert það nú og fái lækkun, sem ekki var áður í boði. Lækkun skulda miðar við stöðu lána 1. janúar 2011.

Ekki þarf að sækja um lækkunina ef öll áhvílandi lán eru í Landsbankanum. Í öðrum tilfellum verður haft samband við viðskiptavini varðandi frekari upplýsingar. Bankinn hvetur þó einstaklinga að sækja um fyrir 1. júlí.  

Loks  mun Landsbankinn lækka aðrar skuldir lántaka, sem teljast umfram greiðslugetu. Undir þetta falla meðal annars yfirdráttur og skuldabréfalán, lánsveð og fleira en ekki t.d. kortaskuldir eða lán sem eru með veði í fasteign eða bifreið skuldara.

Niðurfærsla þessara skulda getur numið allt að 4 milljónum króna, en hún verður gerð að undangengnum sjálfvirku greiðslumati.

Til þess að fá niðurfellingu skulda verða lántakar  að veita Landsbankanum heimild til að meta greiðslugetu sína og gera samning við bankann um að eftirstöðvar verði greiddar með skilvísum greiðslum á 36 mánuðum. Miðað er við að greiðslur af eftirstöðvum annarra skulda fari ekki yfir  10% af ráðstöfunartekjum ársins 2010.

Hægt er að sækja um lækkun annarra skulda í netbanka Landsbankans til 15. júlí.  

mbl.is