Rannsóknin flókin og erfið

Ólafur Helgi Kjartansson sýlsumaður.
Ólafur Helgi Kjartansson sýlsumaður.

Ólafur Helgi Kjartansson, sýslumaður á Selfossi, segir að rannsókn á máli barnaníðings í Vestmannaeyjum, hafi verið flókin og erfið. Hún sé enn í gangi og engin ákæra hafi enn verið gefin út. Hann ætli ekki að tjá sig frekar um málið meðan það sé enn til meðferðar.

Maðurinn nauðgaði stjúpdóttur sinni um margra mánaða skeið en grófustu brotin tók hann upp á myndband. Gögnin í málinu, myndbönd af nauðgun mannsins, efni af Netinu sem sýnir barnamisnotkun, auk framburða stúlknanna lá fyrir síðasta haust.

Bæði Björgvin Björgvinsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, og Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, hafa gagnrýnt að ekki hafi verið farið fram á gæsluvarðhald yfir manninum. Sagði Björgvin meðal annars að nægir hagsmunir hefðu verið í málinu til að loka brotamanninn inni.

„Það er því miður ekki óalgengt að svona mál taki langan tíma, meðal annars vegna þess að það komu upp ný tilvik á rannsóknartímanum og ný fórnarlömb,“ segir Ólafur Helgi.

Það sé dómstóla að skera úr um sekt eða sýknu manna samkvæmt mannréttindasáttmála Evrópu og stjórnarskrá Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina