Hágöngulón fylltist í hlaupinu

Hágöngulón er hluti Hágöngumiðlunar sem miðlar vatni á vatnasviði Köldukvíslar. …
Hágöngulón er hluti Hágöngumiðlunar sem miðlar vatni á vatnasviði Köldukvíslar. Vatnið nýtist virkjunum á Þjórsár- og Tungnársvæðinu. Ljósmynd/Landsvirkjun

Hágöngulón fylltist í nótt þegar yfirborð þess hækkaði um 70 sentimetra við hlaup úr Vatnajökli. Vatnsborðið fór að hækka hratt um tvöleytið í nótt og dró verulega úr aðstreyminu um klukkan átta í morgun.

Alls bættust um 26 gígalítrar í lónið í nótt en það er um 37 ferkílómetrar að stærð. Einn gígalítri er þúsund milljón lítrar. Ekki er ljóst hvort hlaupinu eru lokið, en ljóst að verulega hefur dregið úr rennslinu.

Vatnamælingamenn Landsvirkjunar eru nú við Hágöngulón og gengu þeir á Hágöngur til að kanna aðstæður og hvaðan hlaupið kom, að sögn Rögnu Söru Jónsdóttur, upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar. 

Hágöngulón var að fyllast þegar hlaupið kom og nú rennur umframvatnið niður Köldukvísl í Þórisvatn. Þar er enn borð fyrir báru. Mælar Landsvirkjunar sýna að vatnsborð Þórisvatns er byrjað að hækka. 

Talið er að hlaupvatnið komi frá Hamarslóni inn við Hamarinn eða af þeim slóðum. Það hefur ekki verið staðfest. 

Landsvirkjun mun afla tíðari gagna en áður af rennslinu í Hálgöngulón vegna þessa óvenjulega atburðar. Áður var gagna aflað á klukkustundar fresti. 

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra hefur fylgst náið með ástandinu. Flogið verður yfir vestanverðan Vatnajökul um leið og tækifæri gefst en eins og stendur er skýjahula yfir jöklinum. Vísindamenn fylgjast með framvindunni og eru í nánu samstarfi við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.  

Upplýsingasíða Landsvirkjunar um Hágöngumiðlun

Hágöngulón er vestur af Köldukvísalrjökli.
Hágöngulón er vestur af Köldukvísalrjökli.
mbl.is