Setur skilyrði fyrir stuðningi

Þráinn Bertelsson
Þráinn Bertelsson Ernir Eyjólfsson

Þráinn Bertelsson, þingmaður Vinstri grænna, segist ekki styðja fjárlögin í heild sinni nema leyst verði úr fjárhagsvanda Kvikmyndaskóla Íslands á sanngjarnan hátt. 

Komi upp sú staða, að Þráinn styðji ekki fjárlögin og öll stjórnarandstaðan verði á móti þeim, þá verða þau felld, þar sem ríkisstjórnin situr með eins þingmanns meirihluta. 

„Kannski er ég búinn að vera of þægur. Á þeim niðurskurðartímum sem hafa verið síðan ég kom inn á þing, hef ég horft upp á að framlög til hinna skapandi greina hafa verið skert mikið, mest af öllu til kvikmyndagerðar, “ segir Þráinn. „Nú er komið nóg. Þessi skóli hefur verið undirfjármagnaður, en hefur samt þróast á mjög spennandi hátt. Hann er að útskrifa nemendur á ódýrari hátt en nokkur kvikmyndaskóli á Norðurlöndunum,“ segir Þráinn.

Hann bendir á að kvikmyndagerð skapi flest afleidd störf allra skapandi greina. Það gleymist gjarnan í umræðunni.

En hvað gerist, verði ekki fundin skynsamleg lausn?

„Þá er alveg ljóst að ég styð ekki fjárlögin,“ segir Þráinn.

Hann segist vera bjartsýnn á að ekki komi til þess. „Ég er meira en vongóður, ég er alveg viss um að lausn sé innan sjónmáls.“

Þráinn furðar sig á vinnubrögðum menntamálaráðherra í málefnum skólans.  „Það eru engin vinnubrögð hjá menntamálaráðherra (Katrínu Jakobsdóttur) að fara í frí, sem átti sér nokkurn aðdraganda og skilja málefni skólans eftir í lausu lofti. Afleiðingarnar eru þær að hluti af starfsliðinu hefur ekki fengið greidd laun í fjóra mánuði. Nú vil ég að stjórnvöld komi fram eins og manneskjur,“ segir Þráinn. „Það er stutt í að skólastarf hefjist. Ég á svo erfitt með að skilja hvað það á að fyrirstilla að stilla þessum skóla svona upp við vegg.

Hann segir að starfandi menntamálaráðherra, Svandís Svavarsdóttir,  sýni málinu mikinn skilning og hafi vilja til að finna á því sanngjarna lausn.

mbl.is