Virkjanir í Þjórsá verði fluttar í biðflokk

Neðri hluti Þjórsár.
Neðri hluti Þjórsár. www.mats.is

Á flokksráðsfundi Vinstri-grænna í dag var samþykkt ályktun um að færa eigi þrjár virkjanir í neðri hluta Þjórsár í svonefndan biðflokk í þingsályktunartillögu um svonefnda rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúruauðlinda.

Samkvæmt tillögunni, sem kynnt var í síðustu viku, eru virkjanirnar þrjár í nýtingarflokki en Vinstri grænir segja að enn skorti rannsóknir á mikilvægum sviðum.

Í ályktun fundarins um náttúruvernd og Rammaáætlun segir, að viðurkennt sé að rannsóknir skorti á einstökum laxastofni Þjórsár, á lífríki flestra eyja árinnar, á uppfoki úr árfarveginum við minnkað rennsli árinnar, á grunnvatnstöðu á Skeiðum og í Flóa og á lífríki sjávar.  Landslagsrannsóknir séu ófullnægjandi og af vanefnum gerðar. 

Síðast en ekki síst hafi samfélagsleg áhrif virkjana í byggð ekki verið rannsökuð en þau séu þegar veruleg og neikvæð í byggðunum við ána. Áhrif á samfélag séu ein af grunnstoðum sjálfbærni.

Hitaveita Suðurnesja aftur í almenningseigu

Á fundinum var ítrekaður stuðningur VG við ríkisstjórnina og þátttöku flokksins í henni og lögð  áhersla á mikilvægi þess að áfram verði unnið að vinstri-grænum málum á vettvangi landsmálanna.

Segir VG að ríkisstjórnin eigi að standa vörð um eign þjóðarinnar á orkuverum og orkuauðlindum og kjörnir fulltrúar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs vinni að þeim markmiðum, meðal annars í þeirri vinnu sem framundan er við stjórnarskrá landsins.

Einnig er skorað á þingflokk og ráðherra VG að koma Hitaveitu Suðurnesja aftur í almenningseigu, enda sé það í fullu samræmi við stefnu flokksins og ríkisstjórnarinnar um þjóðareign á auðlindum.

Vefur VG

mbl.is

Bloggað um fréttina