Játningarmál en samt ekki

Ákærðu koma fyrir dómin í morgun.
Ákærðu koma fyrir dómin í morgun. mbl.is

Fyrri degi aðalmeðferðar í máli ákæruvaldsins gegn foringja og meðlimi vélhjólasamtakanna Black Pistons lauk á fjórða tímanum í dag. Enn á eftir að leiða þrjú vitni fyrir dóminn en mæti þau ekki á morgun verða gefnar út handtökuskipanir. Mikill munur er á framburði aðila í málinu og það þrátt fyrir að annar sakborninga hafi játað líkamsárás.

Fyrir hádegi í dag var tekin skýrsla af Davíð Frey Rúnarssyni og Ríkharð Júlíusi Ríkharðssyni, þ.e. ákærðu í málinu, og svo fórnarlambinu og foreldrum þess. Eftir að hafa hlustað á framburð þeirra er ekki hægt að sjá að um hafi verið að ræða uppgjör innan vélhjólasamtakanna, eða ódæði unnin í nafni þeirra, líkt og fram kom í gæsluvarðhaldsúrskurði yfir ákærðu í málinu.

Ákæruatriðin eru alvarleg. Davíð og Ríkharð er gefið að sök að hafa haldið karlmanni fæddum árið 1989 nauðugum frá þriðjudagskvöldi, 11. maí sl., til hádegis næsta dags, þegar maðurinn slapp úr haldi þeirra. Samkvæmt ákæru var manninum misþyrmt alloft á þeim tíma, m.a. með þykkum tölvukapli, skrautsverði og kústskafti. Hann hlaut margvíslega áverka. Að eigin sögn hlaut hann mikið mar á andliti, höndum, baki, lærum og maga. Þá sé hann enn ekki kominn með fullan styrk í vinstri handlegg, fái sífellda bakverki og sé enn með skert sjónsvið.

Dagurinn hófst eiginlega á því að Davíð Freyr játaði að hafa ráðist á manninn, og veitt honum áverka með höggum og spörkum. Það hafi hann gert vegna þess að maðurinn dreifði lygum um vímuefnasölu og handrukkun. „Hann var búinn að rugla hitt og þetta úti um allan bæ, og ljúga hinu og þessu. Þetta fór upp í rifrildi og ég átti nokkur högg á hann,“ sagði Davíð en um leið neitaði hann alfarið að ákærði Ríkharð hefði haft nokkuð með málið að gera. Árásin hefði að vísu verið framin heima hjá Ríkharð en hann hefði ekki komið að henni.

Jafnframt vísaði Davíð því algjörlega á bug að um hefði verið að ræða frelsissviptingu. Allir hefðu þeir þekkst um nokkurt skeið og maðurinn hefði algjörlega sjálfviljugur verið með þeim, enda hefði hann getað yfirgefið samkvæmið hvenær sem hann vildi.

Flúði af hársnyrtistofunni

Meðal þess sem segir í ákæru er að manninum hafi verið haldið yfir nótt í iðnaðarhúsnæði í Dugguvogi. Óumdeilt er að fórnarlambið var þar yfir nótt en ekki virðist hafa tekist að sýna fram á að fórnarlambið hafi verið þar læst inni. Hins vegar var sýnt fram á að ekki var hægt að læsa því rými þar sem hann segist hafa verið geymdur. Fékk þetta stoð í ljósmyndum, vitnisburði eiganda húsnæðisins, sem er að vísu fyrrum tengdafaðir Davíðs, auk þess sem rannsóknarlögreglumenn sannreyndu ekki hvort hægt væri að læsa mann þar inni.

Frelsissvipting er alvarlegt afbrot og verjandi Davíðs reyndi enda í lengstu löð að bera brigður á þann ákærulið, þ.e. að um frelsissviptingu hafi verið að ræða. Af framburði flestra virtist víst að fórnarlambið hafi haft tækifæri til að flýja en hugsanlega má finna ástæðu þess að það gerði það ekki í eigin framburði. „Fyrr um kvöldið var Ríkharð búinn að segja, að ef ég myndi flýja þá yrði fjölskyldu minni gert mein. Það er ekki hægt að lýsa forgangsröðuninni þegar þú ert í svona aðstöðu.“ Vert er þó að benda á að Ríkharð neitaði því að hafa nokkurn tíma hótað fórnarlambinu.

Verjandi Ríkharðs benti manninum einnig á að hann hafi haft ótal tækifæri til að komast burtu. „Hvað breyttist á rakarastofunni.“ Svaraði maðurinn því til að hann hafi ekki getað meira. Hann hafi verið nálægt lögreglustöðinni og haft góða tilfinningu fyrir flótta.

Maðurinn flúði þegar Davíð fór í klippingu á rakarastofu í Borgartúni. Þegar Davíð varð þess var kippti hann sér þó ekki upp við það en kláraði snyrtinguna. Starfsfólk stofunnar kom einnig fyrir dóm og þótti maðurinn rólegur en ekki óttasleginn né sá það áverka á honum.

Þetta með áverkana má þó eflaust rekja til þess að búið var að farða fórnarlambið. Það gerðist um morguninn heima hjá Ríkharði. Þar var fyrir ung stúlka sem einnig kom fyrir réttinn. Þó hún vildi ekki láta mikið uppi um hvert erindi hennar var á staðnum játti hún því að hún farðaði manninn. „Já, af því að hann var að fara í atvinnuviðtal,“ sagði stúlkan um förðunina og síðar að fórnarlambið hefði sagt sér að Litháar hefðu ráðist á sig. Hún sagði jafnframt að maðurinn hefði virst rólegur.

Verður að hafa sinn gang

Flest vitni komu fyrir dóminn í dag en þó eru eftir þrjú. Ekki tókst að hafa uppi á þeim og því verða þau kvödd til á morgun. Takist ekki að hafa uppi á þeim verður gefin út handtökuskipun og lögreglan færir þau fyrir réttinn þar sem þau finnast. Vonuðust allir aðilar til að þetta yrði ekki til að tefja málið en því á að ljúka um hádegisbil. Um er að ræða fjölskipaðan dóm og á meðan álagið á dómstólana er eins og það er, getur verið erfitt að finna tíma fyrir sömu dómara að koma saman til að ljúka málinu. „En þetta verður að hafa sinn gang,“ líkt og Pétur Guðgeirsson dómsformaður sagði rétt áður en dómþingi var slitið.

Eftir vitnisburð taka við ræður saksóknara og verjanda og verður fróðlegt að sjá hvernig tekist verður á. Verjandi Ríkharðs ætti að eiga nokkuð náðugan dag enda virðist aðeins standa orð á móti orði um hans þátt í málinu. Það eru þá orð fórnarlambsins og hans sjálfs. Ríkharð neitar sök og þegar svo Davíð er búinn að játa á sig sök að einhverju leyti er spurning hvernig fer. Þá verður fróðlegt að heyra hvernig frelsissvipting verður rökstudd ef fórnarlambinu gafst ótal tækifæri til að komast undan. Hugsanlega er málið að falla nákvæmlega líkt og sakborningar vilja. En svo getur ýmislegt gerst í dómsal á nokkrum klukkustundum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert