Keflaður og skilinn eftir í baðkari

Davíð Freyr Rúnarsson (nú Davíð Fjeldsted) og Ríkharð Júlíus Ríkharðsson …
Davíð Freyr Rúnarsson (nú Davíð Fjeldsted) og Ríkharð Júlíus Ríkharðsson þegar Black Pistons-málið var fyrir dómstólum. mbl.is

Þremur karlmönnum verður í Héraðsdómi Reykjavíkur í fyrramálið gert að gefa upp afstöðu sína til ákæru á hendur þeim fyrir rán, sérstaklega hættulega líkamsárás, hótanir og frelsissviptingu. Mennirnir eru meðal annars sakaðir um að hafa haldið manni fjötruðum og kefluðum í baðkari yfir nótt.

Tveir mannanna fengu refsidóma fyrir aðild sína að Black Pistons-málínu svonefnda á árinu 2011. Voru þeir dæmdir fyrir frelsissviptingu og líkamsárás. Í niðurstöðu dómsins sagði að mennirnir hefðu brotið niður mótstöðuþrek ungs manns, fórnarlambs síns, og lamað hann af hræðslu með hrottalegum og endurteknum líkamsárásum og með hótunum um ófarir hans og fjölskyldu hans.

Helltu þvottaefni upp í manninn

Í málinu að þessu sinni eru þeir Ríkharð Júlíus Ríkharðsson og Davíð Fjeldsted, sem báðir eru sagðir tengjast glæpasamtökunum Útlögum (e. Outlaws) sem varð til úr glæpasamtökunum Black Pistons, ásamt þriðja manni, ákærðir fyrir að hafa síðdegis fimmtudaginn 19. desember 2010 í bakherbergi á Monte Carlo við Laugaveg veist að karlmanni og krafið hann um peninga.

Samkvæmt ákærunni þurfti maðurinn að sæta ítrekuðum barsmíðum. Var hann í kjölfarið sviptur frelsi sínu og færður í íbúð í Suðurhlíð í Reykjavík þar sem ofbeldið hélt áfram. Var maðurinn sleginn með hnefum, hnúajárnum og kylfu, þvottaefni var hellt upp í hann, hann brenndur með sígarettum og hótað var að klippa af honum fingur og eyru.

Á meðan þessu stóð afklæddu ákærðu manninn og héldu honum svo fjötruðum og kefluðum yfir nótt í íbúðinni.

Hótuðu að nauðga systur fórnarlambsins

Maðurinn var látinn laus úr haldi ákærðu síðdegis daginn eftir en þá hafði faðir hans greitt eina milljón króna inn á bankareikning eins ákærða.

Áður en hann var látinn laus hótuðu mennirnir þrír honum því að þeir myndu nauðga systur hans og honum ef hann leitaði til lögreglu. Bæði yrðu þau einnig beitt frekara ofbeldi.

Fórnarlambið í málinu, karlmaður á fertugsaldri, krefst þess að ákærðu greiði honum 5,1 milljón króna í miskabætur.

Sem áður segir verður málið þingfest í fyrramálið í Héraðsdómi Reykjavíkur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert