Jóhanna vildi ekki afskriftir

Krafan um afskriftir á stökkbreyttum húsnæðisskuldum var ein meginkrafa búsáhaldabyltingarinnar.
Krafan um afskriftir á stökkbreyttum húsnæðisskuldum var ein meginkrafa búsáhaldabyltingarinnar. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra beitti sér gegn því að húsnæðislán yrðu afskrifuð að hluta eftir efnahagshrunið af ótta við áhrif þess á fjárhagsstöðu Íbúðalánasjóðs. Þetta fullyrðir Guðmundur Andri Skúlason, formaður Samtaka lánþega, og bendir á að einkabankarnir hafi verið á annarri skoðun.

Eins og fram hefur komið á vef Morgunblaðsins fullyrðir Ögmundur Jónasson að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi frá upphafi efnahagsáætlunarinnar lagst gegn afskriftum á húsnæðisskuldum skuldsettra heimila.

Ekkert því til fyrirstöðu að stjórnvöld þrýsti á afskriftir

Fullyrðing Guðmundar Andra bendir hins vegar til að málið sé flóknara. Hann fagnar ummælum Ögmundar.

„Það er vel að Ögmundur lýsir þessari skoðun því nú er ríkissjóður útskrifaður og AGS farinn og ekkert til fyrirstöðu að setja þetta í gang,“ segir Guðmundur Andri og á við afskriftir til handa heimilum í skuldavanda.

Hann rökstyður þörfina fyrir afskriftir svo:

Vanskil vitna um erfiða skuldastöðu

„Upplýsingar frá Creditinfo sýna fram á að fólki í alvarlegum vanskilum hefur fjölgað um 10% frá áramótum. Þær aðgerðir sem hingað til hefur verið gripið til til að leiðrétta stöðu lánþega hafa því augljóslega engu skilað og það er fagnaðarefni ef Ögmundur ætlar að berjast fyrir því að gera betur. Þessi skoðun Ögmundar stangast þó á við þær upplýsingar sem ég hef um málið.

En á fundi sem ég átti, svo dæmi sé tekið, á sínum tíma með Hermanni Björnssyni, framkvæmdastjóra viðskiptabankasviðs Kaupþings, og Regin Mogensen, framkvæmdastjóra lögfræðisviðs bankans, um það bil ári eftir hrun, kom fram að bankarnir vildu þá strax leiðrétta lánasöfn sín. Sú leiðrétting væri í raun grunnforsenda fyrir áreiðanlegu mati á eignasafni bankanna.

Aftur á móti vildi Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra ekki fara í þá framkvæmd. Ástæðan var að með leiðréttingu færi Íbúðalánasjóður yfir um. Það er því spurning hvort AGS er hér hafður fyrir rangri sök. Ég hef auðvitað ekki hugmynd um það,“ segir Guðmundur Andri og beinir orðum sínum að forseta ASÍ og þingmanni Samfylkingarinnar.

„Síðan er vitað að það voru Gylfi Arnbjörnsson og Sigríður Ingibjörg Ingadóttir sem börðust gegn því að verðtryggingin yrði tekin tímabundið úr sambandi strax eftir hrun, en auðvitað var öllum þá þegar ljóst að verðtryggðar skuldir heimilanna færu upp úr öllu valdi samhliða hruni krónunnar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina