Komast ekki í námsferðina

Um 60 manna hópur kennara við Brekkubæjarskóla á Akranesi sér ekki fram á að komast í námsferð til Boston sem hópurinn var búinn að skipuleggja í vetrarfríi í október. Ástæðan er sú að Iceland Express hefur fellt flugið niður.

„Við vorum búin að skipuleggja ferð til Boston í vetrarfríi okkar í október. Við vorum búin að hafa samband við skóla úti sem ætluðu að taka á móti okkur. Fólk var búið að panta hótel og búið að borga inn á ferðina og gera aðrar ráðstafanir. Síðan fengum við símtal frá Iceland Express fyrir nokkrum dögum þar sem okkur var tilkynnt að búið væri að fella flugið niður. Við fengum þær skýringar að það væru svo fáir að fljúga á þessum tíma og ekkert yrði flogið í september og október,“ segir Hildur Björnsdóttir, kennari við Brekkubæjarskóla.

Hildur segir að Iceland Express hafi boðið hópnum að fljúga til New York helgina á eftir, en hún segir að það gangi ekki upp vegna þess að ferðina hafi átt að fara í vetrarfríi kennara. Auk þess hafi hópurinn ekki komið sér upp neinum tengslum við skóla í New York.

Hildur segir að búið sé að eyða ómældum tíma í að skipuleggja ferðina. Skipuleggjendur hafi átt í samskiptum við skóla og aðra aðila sem hafa unnið að því með hópnum að setja saman dagskrá  fyrir þessa daga.

Hildur segist vera afar ósátt við þessa niðurstöðu. Hún hafi óskað eftir að fá að ræða við yfirmann hjá félaginu til að ræða þessa ákvörðun, en hún hafi ekki náð sambandi við neinn. Hún hafi óskað eftir viðtali við forstjóra félagsins og sent honum tölvupóst en hann hafi ekki svarað.

Hildur segist ekki sjá fram á að neitt verði úr þessari ferð. Það taki langan tíma að skipuleggja nýja námsferð og gera nauðsynlegar ráðstafanir. Tíminn sé einfaldlega orðinn of stuttur. Hún segist líka furða sig á hversu litlu máli það virðist skipta Iceland Express að þessi stóri hópur komist leiðar sinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert