Fulltrúar Alþingis fengu greitt

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Heiddi

Fulltrúar Alþingis sem hafa átt sæti í ríkisfjármálanefnd hafa fengið greitt fyrir setu í nefndinni. Þetta kemur fram í svari ríkisendurskoðunar við fyrirspurn Höskulds Þórhallssonar, þingmanns Framsóknarflokksins. Fyrrverandi formaður fjárlaganefndar segir að nefndin hafi ekki verið starfandi frá árinu 2008.

Fram kemur í svari ríkisendurskoðunar að ríkisfjármálanefnd fari með óformleg samskipti fjárlaganefndar Alþingis og fjármálaráðuneytisins vegna framkvæmdar fjárlaga. Þá segir að formaður og varaformaður fjárlaganefndar hafi fengið greidd laun eða þóknanir.

Í apríl 2010 óskaði Höskuldur eftir því að ríkisendurskoðun myndi afla upplýsinga um þær nefndir og starfshópa sem störfuðu á vegum forsætisráðuneytisins og fjármálaráðuneytisins og fjölluðu um ríkisfjármál. Þá óskaði hann eftir upplýsingum um það hvort alþingismenn sem hefðu tekið þátt í störfum nefndanna og hópanna hefðu þegið laun fyrir sín störf sl. fjögur ár.

Höskuldur segir í samtali við mbl.is að hann hafi loks fengið svör nú í júní og segir hann að það sé grafalvarlegt að svarið skuli hafa borist svona seint.

„Ég hef gagnrýnt það að þessi ríkisfjármálanefnd hafi yfirleitt verið til vegna þess að þeir sem bera mesta ábyrgð á því að fjárlagafrumvarpið fái faglega umfjöllun í þinginu eru formaður og varaformaður nefndarinnar. Það gengur ekki að þessir aðilar séu látnir endurskoða eigin störf og tillögur,“ segir Höskuldur. Þetta endurspegli svo margt sem sé að fjárlagagerðinni.

Þingmenn á launum hjá framkvæmdavaldinu

„Ég fékk svar frá hæstvirtum ríkisendurskoðanda fyrir stuttu síðan þar sem kemur í ljós að formaður og varaformaður fjárlaganefndar hafi verið á launum hjá framkvæmdavaldinu við að leggja grunninn að fjárlagafrumvarpinu. Það er grafalvarlegt. Það er bara grafalvarlegt. Hverjir sjá svo um einmitt eftirlit með þeirri vinnu sem á að fara fram innan framkvæmdavaldins. Er það ekki löggjafarvaldið? Er það ekki rétt? Þetta eru staðfestar upplýsingar frá ríkisendurskoðanda,“ sagði Höskuldur í umræðum um fjárlög næsta árs á Alþingi í dag, en hann beindi spurningunni til núverandi formanns fjárlaganefndar.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, formaður fjárlaganefndar, sagðist ekki ætla að tjá sig um málið að svo stöddu. „Ég hef ekki verið inni í þessum málavöxtum. Hef ekki séð þau samskipti sem að háttvirtur þingmaður hefur átt við eftirlitsaðila þingsins. Og mun því ekki tjá mig frekar um það hér í pontu að svo stöddu,“ sagði Sigríður.

Ásökunum vísað á bug

Oddný G. Harðardóttir, fyrrverandi formaður fjárlaganefndar og núverandi þingflokksformaður Samfylkingarinnar, vísaði því hins vegar á bug að hún hefði fengið greitt fyrir setu í nefndinni. „Ég hef séð þetta bréf sem Höskuldur Þórhallsson var að tala hér um áðan. Það er langt síðan að ég hafði samband við ríkisendurskoðanda og bað þá um að leiðrétta þessi rangindi. Þá fékk ég þær upplýsingar að þessi nefnd hefði verið starfandi á árinu 2008. Hún hefur ekki verið starfandi síðan,“ sagði Oddný á Alþingi í dag.

Í samtali við mbl.is segist Höskuldur vera að gagnrýna það samkrull sem hafi verið á milli framkvæmdavaldsins og löggjafarvaldsins við gerð fjárlaga. „Þetta samkrull er enn til staðar jafnvel þó að nefndirnar beri annað nafn í dag og aðrir aðilar eigi sæti í þeim. Eina sem ég get gert er að treysta því að ríkisendurskoðandi gefi mér réttar og fullnægjandi upplýsingar. Þá hljóti maður að spyrja sig, hvað geri það að verkum að fulltrúi í fjárlaganefnd þurfi að bíða í eitt ár og fjóra mánuði eftir svari frá þeim sem eigi að hafa mest eftirlit með fjárlögum hvers árs,“ segir Höskuldur.

mbl.is