Huang Nubo kveðst bjartsýnn

Huang Nubo.
Huang Nubo. mbl.is/Ernir

Kínverski kaupsýslumaðurinn Huang Nubo segir að 80% líkur séu á því að íslensk stjórnvöld muni veita honum leyfi fyrir því kaupa jörðina Grímsstaði á Fjöllum, en þar vill hann m.a. reisa glæsihótel.

Þetta segir Huang í samtali við dagblaðið China Daily.

Hann segir að svar muni berast fljótlega. Þá kveðst hann hafa fundið fyrir miklum stuðningi og fengið jákvæð viðbrögð á Íslandi. 

Jörðin sem Huang vill kaupa er 300 ferkílómetrar að stærð. Fjárfestingin er metin á 200 milljónir dala, eða um 23 milljarða kr.

Hann segir að tengsl sín við landið og náttúrufegurðin séu drifkrafturinn á bak við þessa fjárfestingu.

Fjallað er vinatengsl Huangs við Hjörleif Sveinbjörnsson, en þeir hafa þekkst frá árinu 1977 þegar þeir stunduðu nám við háskólann í Peking í Kína. 

Hjörleifur segir í samtali við China Daily að sér lítist vel á fjárfestingu Huangs. Hann segir að frá bankahruninu árið 2008 hafi Ísland farið í gegnum djúpa efnahagskreppu. „Við þurfum á erlendri fjárfestingu að halda til að koma hlutum á hreyfingu,“ segir Hjörleifur.

Hann segir að ríkisstjórn landsins hafi einnig hvatt Huang til að fjárfesta hér á landi.

Huang greinir frá því að hann hafi fallið fyrir náttúrufegurð landsins þegar hann heimsótti landið í fyrra þegar hann var gestur á ljóðahátíð í fyrra. Hann segist hafa orðið var við þann fjármálavanda sem þjóðin glímdi við og vilja manna til að fá erlenda aðila til að fjárfesta á Íslandi.

Hann sendi teymi manna til að kanna aðstæður hér og þegar Huang heimsótti landið í annað sinn var hann búinn að taka ákvörðun.

Huang er einnig ljóðskáld og hann segir að það hjálpi sér við að taka ákvarðanir í viðskiptum. „Ég valdi þennan stað á Íslandi með því að fylgja eftir eðlishvöt skáldsins fyrir fegurð,“ segir hann.

Hann bætir því við að þau verkefni sem hafi skilað mestum hagnaði séu þau sem tengist sínum menningarsmekk.

Haft er eftir Kristínu Árnadóttur, sendiherra Íslands í Kína, að Huang sé einstakur. Hann sjái tækifæri á stöðum sem aðrir geri ekki. Þá sé Huang mikill náttúruunnandi.

Kristín segir ennfremur að íslensk stjórnvöld séu nú að fara yfir beiðni Huangs um að fá undanþágu til að kaupa jörðina.

mbl.is