Allir fái veiðiheimildir

Pétur H. Blöndal alþingismaður.
Pétur H. Blöndal alþingismaður. mbl.is/Ómar

Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hyggst leggja fram frumvarp á Alþingi um nýja lausn á fiskveiðistjórnunarfrumvarpinu, sem hann segir taka mið af sjónarmiðum bæði stjórnar og stjórnarandstöðu. Gerir frumvarpið m.a. ráð fyrir að veiðiheimildum verið dreift á alla íbúa landsins, þannig að þeim verði heimilt að hagnýta þær í 40 ár frá úthlutunardegi.

Pétur segir í tilkynningu til fjölmiðla að hann hafi á löggjafarþinginu árið 1997 lagt fram þingsályktunartillögu um svipað efni, sem ekki varð útrædd. Þó hafi útfærslan þá verið nokkuð önnur en nú. Það mál var svo endurflutt nokkuð breytt á 125. löggjafarþingi, árið 1999, en fékk heldur ekki framgang á Alþingi.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að þetta verði framkvæmt þannig að að 1/40 (2,5%) hluta samanlagðrar aflahlutdeildar verði dreift á jafnan hátt til allra íbúa landsins á hverju almanaksári. Þar með verði hverjum íbúa gert heimilt að veiða hlutdeild sína í 40 ár að öðrum skilyrðum uppfylltum. Þeim 39/40 hlutum samanlagðrar aflahlutdeildar sem ekki hefur verið úthlutað í fyrstu úthlutun eftir gildistöku laganna er úthlutað á næstu 39 árum. Að gildistíma úthlutunar hvers aflahlutdeildarhluta er hlutanum úthlutað að nýju til 40 ára.

Í greinargerðinni segir ennfremur:

„Afurð þess kerfis er sú að íbúar landsins eignast tímabundna aflahlutdeild sem óumdeilt er að verður eign þeirra. Það felur þó í sér þá meginbreytingu frá gildandi fiskveiðistjórnkerfi að aflahlutdeildin verður framseljanleg að hluta eða öllu leyti, veðsetjanleg og ekki bundin við skip eða þjóðerni (þ.e. útlendingar mega kaupa þennan tímabundna kvóta). Allir pottar verða aflagðir sem og sérstök úthlutun til strandveiða. Öllum sérstökum kvöðum verður aflétt af útgerðinni og henni fengin sömu réttindi og skyldur og gilda um önnur fyrirtæki. T.d. verður auðlindagjaldi aflétt."

Samkvæmt frumvarpi Péturs, sem miðar við að taka gildi 1. júlí árið 2012, munu núverandi kvótahafar fá úthlutað aflahlutdeild. Fyrir þann dag muni Fiskistofa reikna út hversu hátt aflamark hvert skip fær, reiknað í þorskígildiskílóum miðað við úthlutun veiðiárið 2011/2012. Þannig komi fram heildaraflinn í þorskígildiskílóum og hlutdeild hvers skips í þeim afla.  

mbl.is