Fréttaskýring: Fjöldi eigna í eigu aðila utan EES

Grímsstaðir á Fjöllum.
Grímsstaðir á Fjöllum.

Áhugi kínverska auðmannsins Huangs Nubos á jarðakaupum hér á landi er ekkert einsdæmi því að fjölmargir útlendingar eiga hér bæði jarðir og fasteignir. Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu hafa 24 undanþágur verið veittar til aðila utan Evrópska efnahagssvæðisins til fasteigna- og jarðakaupa hér frá árinu 2007.

Fasteignasali segir að áhugi útlendinga á slíkum kaupum hér á landi hafi haldist stöðugur undanfarna tvo til þrjá áratugi.

Sem dæmi um umsvifamikil kaup erlends aðila á jarðnæði má nefna að árið 2003 gekk sveitarstjórn Mýrdalshrepps að tilboði Svisslendingsins Rudolfs Lamprechts í eyðijörðina Engigarð, sem er við Heiðardal. Lamprecht, sem er umsvifamikill fiskiræktandi, samdi þá við Veiðifélag Vatnsdalsár, Kerlingardalsár og Heiðarvatns um leigu á þessum veiðisvæðum til næstu tíu ára.

Magnús Leópoldsson fasteignasali hefur selt útlendingum jarðir og fasteignir í 26 ár. Hann segir að margir þeirra séu með einhverja tengingu við Ísland og flestir komi frá löndum EES, aðallega frá hinum Norðurlandaþjóðunum. „Það er þó eitt og eitt tilfelli utan EES,“ segir Magnús.

Hvert mál metið sérstaklega

Þegar aðilar utan EES-svæðisins vilja kaupa fasteignir hér á landi þarf leyfi frá innanríkisráðherra og er hvert mál metið sérstaklega. Magnús segir að leyfin séu langoftast veitt, en þó ekki alltaf og nefnir sem dæmi þegar breskur kaupsýslumaður hafði hug á að kaupa Hótel Valhöll á Þingvöllum fyrir nokkrum árum fyrir milligöngu Magnúsar. Ekki var um að ræða jarðakaup, heldur vildi Bretinn einungis kaupa reksturinn og fasteignina.

Magnús segir að yfirleitt kaupi útlendingar litlar jarðir hér á landi og að flestir sem eigi þessi viðskipti séu fólk sem hyggist dvelja hér í fríum sínum. Einnig sé nokkuð um að hestafólk kaupi hér jarðir. Langoftast sé um að ræða jarðir þar sem verulega hefur hægt á búskap og hann jafnvel lagst af.

Hann segir einnig nokkuð um að útlendingar eigi hér íbúðir, sér í lagi í miðborg Reykjavíkur og að fjöldi þeirra sölusamninga sem gerðir séu við útlendinga um kaup á jörðum og fasteignum hafi haldist nokkuð óbreyttur þau 26 ár sem hann hefur starfað að sölu til erlendra aðila. „Kaupin jukust ekki við hrun krónunnar,“ segir Magnús. „En ég hef nokkrum sinnum upplifað það í gegnum tíðina að upp hafi komið hræðsla við jarðakaup útlendinga.“

Fjórar undanþágur í ár

Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu hafa 24 undanþágur verið veittar útlendingum frá löndum utan EES til fasteigna- og jarðakaupa hér á landi frá árinu 2007. Þar af voru 21 leyfi til fasteignakaupa, tvö til kaupa á sumarhúsalóðum og eitt leyfi var veitt til kaupa á 15 hektara jörð. Flestar undanþágurnar voru veittar árið 2007, eða níu, og það sem af er þessu ári hafa fjögur leyfi verið veitt. Bandaríkjamenn eru fjölmennastir í þessum hópi, en umsóknir koma víða að og hafa sumir fengið leyfi oftar en einu sinni á þessu tiltekna tímabili.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert