Gríðarlegur áhugi á framboðinu

Guðmundur Steingrímsson, alþingismaður í ræðustól.
Guðmundur Steingrímsson, alþingismaður í ræðustól. mbl.is/Ómar

Guðmundur Steingrímsson alþingismaður segir að flokkurinn sem hann vinnur nú að því að stofna með Besta flokknum og fleirum verði með í næstu alþingiskosningum, hvenær sem þær verða. „Maður veit ekki alveg hvenær næstu kosningar verða en við göngum út frá því í okkar plönum að kosningar verði eins og stefnt er að árið 2013. Það er eitt og hálft ár í það og við lítum á það sem kost að hafa þá smátíma til að vinna hlutina í ró og næði. En ef það breytist rjúkum við fram úr öllu og verðum með,“ segir Guðmundur. Spurður hvort þeir geti verið með ef boðað verður til kosninga eftir þrjá mánuði játar Guðmundur því. „Já algjörlega, við munum geta það. Flokkurinn ætlar að vera með í næstu kosningum hvenær sem þær verða.“

Fyrirhugað framboð hefur tekið á leigu hæð í húsnæði í Brautarholti undir starfsemina. „Það er of snemmt að spá um hvort þetta verður framtíðarhúsnæði flokksins. Við þurftum samastað, þetta er orðinn dágóður hópur sem ætlar að standa að þessu og  nú þarf fólk að fara að geta hist annars staðar en í netheimum,“ segir Guðmundur.

Um 150 til 200 manns eru þegar tengdir framboðinu á landsvísu að sögn Guðmundar. „Viðbrögðin hafa verið mjög góð og ég vona að þau verði það áfram. Það er gríðarlegur áhugi á þessu framboði og fullt af fólki sem hefur gefið sig fram. Samstarfið við fólkið í Besta flokknum hefur gengið gríðarlega vel og þessi nýi flokkur er að verða ein heildstæð eining. Við erum í fullu í að koma á skipulagi í kringum flokkinn og koma á upplýsingaleiðum.“

Framboðið fer af stað með nafnasamkeppni á flokkinn í næstu viku og verið er að hanna heimasíðu flokksins. Hún verður á slóðinni Heimasidan.is. „Við eigum Heimasíðuna, hina einu sönnu. Svo verður húsnæðið bara kallað Húsnæðið,“ segir Guðmundur.

mbl.is