Hamborgarhryggur vinsælastur

Sígildur og ómissandi hamborgarhryggur.
Sígildur og ómissandi hamborgarhryggur. mbl.is/Þorkell

Hamborgarhryggur er langvinsælasti aðalrétturinn á borðum landsmanna á aðfangadag og eru litlar breytingar milli ára. Þetta kemur fram í könnun sem MMR gerði.

Segir að þó meirihlutinn ætli að snæða hamborgarhrygg á aðfangadag jóla þá hafi fækkað lítillega í þeim hópi.

Af þeim sem tóku afstöðu ætlaði rúmlega helmingur að borða hamborgarhrygg á aðfangadag nú eða 50,7% en 52,9% fyrir ári síðan.

Þeim fækkaði einnig nokkuð sem ætluðu að borða svínakjöt (annað en hamborgarhrygg), voru 6,7% í desember 2010 en nú 4,9%. Aftur á móti fjölgaði þeim sem ætluðu að borða lambakjöt (annað en hangikjöt) á aðfangadag milli ára. Fyrir ári síðan sögðust 8,2% ætla að borða lambakjöt á aðfangadag en nú 11,5%.

Önnur svör skiptust þannig að 9,2% ætluðu að borða kalkún á aðfangadag, 9,1% rjúpu og 14,6% ætluðu að borða eitthvað annað en það sem að ofan er talið.

Alls svöruðu 865 könnuninni, sem var netkönnun. Hún var framkvæmd dagana 6.-9. desember.

Nánar um könnun MMR.

mbl.is

Bloggað um fréttina