Leikskólastjórnendur mótmæla

Þórunn Gyða Björnsdóttir, formaður Reykjavíkurdeildar Félags stjórnenda leikskóla, afhendir Jóni …
Þórunn Gyða Björnsdóttir, formaður Reykjavíkurdeildar Félags stjórnenda leikskóla, afhendir Jóni Gnarr undirskriftirnar í Ráðhúsinu í dag. mbl.is/Ómar

Leikskólastjórnendur í Reykjavík afhentu Jóni Gnarr borgarstjóra mótmæli með  undirskriftum um 90% félagsmanna, þar sem þess er krafist að borgin dragi til baka niðurfellingu á yfirvinnugreiðslum leikskólakennara, sem þeim sé gert að framkvæma um áramótin á meðan aðrar starfsstéttir í leikskólum séu ekki skertar í kjörum. Nemur kjaraskerðing leikskólakennara um 10%.

Um 90% leikskólastjórnenda í Reykjavík skrifuðu undir mótmælin. Ingibjörg Kristleifsdóttir, formaður Félags stjórnenda í leikskólum, var meðal þeirra sem voru viðstaddir afhendingu mótmælanna í Ráðhúsinu í dag.

Í nokkur ár hafa verið greiddar yfirvinnugreiðslur til allra sem starfa í leikskólum borgarinnar. Leikskólakennarar, sem hafa lögverndað starfsheiti og fagmenntun, gerðu samninga aðeins umfram aðrar stéttir, sem felast í launaleiðréttingu til samræmis við grunnskólakennara. Reykjavíkurborg ákvað þá að segja leikskólakennurum einum upp þessum yfirvinnugreiðslum, en öðrum ekki.

„Þetta hefur þau áhrif að aðrar starfsstéttir fara jafnvel framúr leikskólakennurum í launum. Félag leikskólakennara mun eflaust skoða það mál, en það sem leikskólastjórnendur eru ósáttir við er að þurfa að segja leikskólakennurum upp þessari kjarabót og brjóta þannig jafnræðisreglu Reykjavíkurborgar,“ segir Ingibjörg, sem bætir við að niðurskurður á leikskólum borgarinnar hafi bitnað mjög á starfsemi þeirra og þjónustu. Lengra verði ekki komist í niðurskurði.

„Við vonumst til að þetta verði dregið til baka. Reykjavíkurborg er langt á eftir öðrum sveitarfélögum með það að fjölga leikskólakennurum. Á meðan það ætti að fjölga í stéttinni þá er vegið að þeim einum með uppsögn á hlunnindum,“ segir Ingibjörg en í Reykjavík eru menntaðir leikskólakennarar í 30% af stöðugildum leikskólanna, á meðan hlutfallið er t.d. um 90% á Akureyri.

„Þetta endar með því að Reykjavík mun missa leikskólakennara úr skólunum," segir Ingibjörg að lokum.

Leikskólastjórnendur fjölmenntu í Ráðhúsið í dag.
Leikskólastjórnendur fjölmenntu í Ráðhúsið í dag. mbl.is/Ómar
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert