Veiti upplýsingar um áhrif á heilsu

Saltbaukur
Saltbaukur Af vef Matvælastofnunar

Neytendasamtökin ætlast til að eftirlitsaðilar veiti greinargóðar og rökstuddar upplýsingar um hvort ástæða sé til að ætla að iðnaðarsalt geti haft neikvæð heilsufarsleg áhrif á neytendur, segir í tilkynningu frá samtökunum. Sé raunin sú krefjast samtökin þess að innkölluð verði þau matvæli sem eru á markaði og innihalda iðnaðarsalt

Í tilkynningu frá samtökunum segir að lögð sé áhersla á að matvælafyrirtæki fari að reglum og að eftirlitsaðilar fylgist með að farið sé að reglum við framleiðslu matvæla.

Tilkynning Neytendasamtakanna:

„Fram hefur komið í fjölmiðlum að innlend matvælafyrirtæki hafa notað iðnaðarsalt,  sem ekki er ætlað til matvælaframleiðslu, í framleiðslu sína. Neytendasamtökin gera alvarlega athugasemd við þetta. Samtökin leggja áherslu á að matvælafyrirtæki fari að fullu eftir þeim reglum sem gilda þannig að neytendur geti treyst þeim matvælum sem eru á boðstólum. Einnig gera samtökin þá kröfu að eftirlitsaðilar tryggi að framleiðsla matvæla sé með eðlilegum hætti og í fullu samræmi við gildandi reglur. Neytendasamtökin minna á að þetta er ekki í fyrsta sinn sem mál koma upp sem varða innlenda matvælaframleiðslu með neikvæðum hætti og er þar skemmst að minnast of mikils magns af kadmíum í áburði sem bændur nota á tún sín.

Neytendasamtökin ætlast til að eftirlitsaðilar veiti greinargóðar og rökstuddar upplýsingar um hvort ástæða sé til að ætla að iðnaðarsalt geti haft neikvæð heilsufarsleg áhrif á neytendur. Ef svo er, er það krafa samtakanna að innkalla eigi þau matvæli sem innihalda iðnaðarsalt og sem eru á markaði. Það er á ábyrgð eftirlitsaðila að taka afstöðu til þess hvort notkun á tilteknum efnum sé forsvaranleg og því nauðsynlegt að kalla eftir upplýsingum þar um. Jafnframt er það lágmarkskrafa að neytendur fái upplýsingar um það í hvaða vörur þetta salt hefur verið notað enda er eðlilegt að neytendur geti sniðgengið þær vörur ef framleiðendur hafa ekki frumkvæði að því sjálfir að innkalla þær.“

 

 

 
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert