„Gegndarlaus áróður ESB"

Ásmundur Einar Daðason
Ásmundur Einar Daðason Ómar Óskarsson

Evrópustofa, upplýsingamiðstöð Evrópusambandsins á Íslandi, var opnuð  í dag og mun kynna Evrópusambandið fyrir Íslendingum. Ásmundur Einar Daðason, þingmaður Framsóknarflokksins og formaður Heimssýnar, segir að nú hefjist gegndarlaus áróður Evrópusambandsins sjálfs fyrir eigin ágæti.

„Þarna leggst Evrópusambandið á sveif með aðildarsinnum og þetta er þekkt frá t.d. Noregi, Írlandi, Tékklandi og öðrum löndum. Bara auglýsingarnar sem hafa dunið yfir okkur síðustu daga vegna opnunar Evrópustofu eru meiri en aðildarandstæðingar hafa fjármagn til að auglýsa á heilu ári. Evrópusambandið ætlar að setja í þetta hundruð milljóna og er með auglýsingaskrifstofu á sínum snærum til að kynna eigið ágæti á Íslandi.“

Ásmundur bendir á að til þess að átta sig á þeim fjármunum sem ESB eyðir á ári í að auglýsa sjálft sig og bæta ímynd sína í Evrópu megi benda á að sambandið eyðir meiru en Coca Cola eyðir í auglýsingar á heimsvísu á einu ári.

„Til samanburðar við þau hundruð milljóna sem sambandið ætlar að eyða í að auglýsa sig á Íslandi fáum við í Heimssýn okkar tekjur að mestu frá einstaklingum. Um 80 prósent af okkar fjármunum kemur í gegnum valkvæð félagsgjöld en í félaginu eur um 6.000 einstaklingar.“

Þegar litið er til þeirra ákvæða í íslenskum lögum sem meina erlendum ríkjum að hlutast til um innanríkismálefni Íslands segir Ásmundur aðkomu Evrópusambandsins vera á gráu svæði.

„Þetta er á gráu svæði og kallar því á að við skerpum línurnar í löggjöfinni okkar. Við erum lítið land og fámenn þjóð og því geta bæði ríki og stórfyrirtæki haft gífurleg áhrif til að skekkja umræðuna hér á landi. Ég óttast að þessi innkoma ESB leiði til þess að ekki verði upplýst umræða um kosti og galla aðildar. Nú reynir verulega á þá sem eru innan ríkisstjórnarliðsins að leggist á sveif með okkur til þess að jafna þennan leik og stuðla að umræðu á jafnréttisgrundvelli.“

mbl.is
mbl.is