Ingunn Fjóla og Sirra hljóta 400 þúsund krónur í styrk

Úthlutun úr styrktarsjóði Svaras Guðnasonar og Ástu Eiríksdóttur á aldarafmæli …
Úthlutun úr styrktarsjóði Svaras Guðnasonar og Ástu Eiríksdóttur á aldarafmæli Ástu í Listasafni íslands.Listakonurnar Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir (t.h.) og Sirra (Sigrún Sigurðardóttir (t.v.) hlutu styrkina í ár. mbl.is/Ernir

Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir og Sirra (Sigrún Sigurðardóttir) myndlistarkonur hlutu í dag styrki úr styrktarsjóði Svavars Guðnasonar listmálara og Ástu Eiríksdóttur, eiginkonu hans. Úthlutunin fór fram í Listasafni Íslands og hljóðuðu styrkirnir upp á 400 þúsund krónur hvor.

Styrktarsjóðurinn var stofnaður árið 1993 til að heiðra og varðveita minningu Svavars og til eflingar íslenskri myndlist á komandi árum. Formaður styrktarsjóðsins er nú Karl Ómar Jónsson.

Ingunn Fjóla er fædd árið 1976 og nam myndlist við Listaháskóla Íslands. Í framhaldi af því stundaði hún nám í listasögu við háskólann í Árósum. Verk hennar hafa verið sýnd á fjölda einka- og samsýninga hér á landi sem og erlendis. Má þar nefna Tékkland, Bandaríkin, Litháen og Þýskaland. Ingunn er annar helmingur samstarfstvíeykisins Hugsteypu, sem staðið hefur fyrir fjölda innsetninga í listasöfnum hér á landi.

Sirra (Sigrún Sigurðardóttir) er fædd á Selfossi 1977. Hún útskrifaðist með BA-gráðu frá Listaháskóla Íslands árið 2001 og hélt áfram námi í listfræði við Háskóla Íslands 2003 til 2004. Undanfarin ár hefur Sirra verið mjög virk meðal yngstu kynslóðar íslenskra myndlistarmanna. Hún á nú þegar fjölda sýninga að baki bæði hér á landi og erlendis. Sirra er einn af stofnendum Kling og Bang gallerís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert