Ögmundur gagnrýnir Sjónvarpið

Ögmundur Jónasson
Ögmundur Jónasson mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Ögmundur Jónasson, innanríkisráðherra, er harðorður í garð fréttastofu Sjónvarpsins í nýjum pistli á vef sínum. Segir hann sögulaust skilningsleysi fréttastofunnar vera mjög ámælisvert.

„Vera kann að stundum komi slíkt skilningsleysi ekki að sök en þegar verið er að hafa æruna af mönnum er varla til of mikils mælst að biðja fréttamiðla að setja menn í verkin sem hafa lágmarksþekkingu á viðfangsefni sínu, hafa faglegan metnað, og standa heiðarlega að verki,“ skrifar Ögmundur í tilefni af fréttaflutningi Sjónvarpsins um aðkomu hans að lífeyrissjóðafrumvarpi á Alþingi.

Samþykkti hinn breiða grunn laganna

„Fréttastofa Sjónvarps taldi sig geta sýnt fram á það í kvöld að sú staðhæfing mín væri röng að ég hefði ekki stutt ákvæði lífeyrislaga sem kváðu á um að lífeyrissjóðir ættu jafnan að leita eftir hámarksávöxtun í fjárfestingum sínum. Ég hefði nefnilega stutt  lagabálk sem hafði að geyma ákvæði þessa efnis á sínum tíma. Aðeins Jón Baldvin Hannibalsson hefði verið á móti.

En hverjar eru staðreyndirnar? Á árinu 1996 komu fram þrjú lagafrumvörp á Alþingi sem ollu miklum deilum við samtök launafólks. Í fyrsta lagi breyting á lögum um verkföll og vinnudeilur, í öðru lagi breytingar á lögum um réttindi opinberra starfsmanna og í þriðja lagi frumvarp um lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna.

Hin tvö fyrri náðu fram að ganga að uppistöðu til en með ýmsum breytingum þó. Lífeyrisfrumvarpinu náðum við, andstæðingar þess, hins vegar út úr þinginu. Í kjölfarið sátum við, BSRB, BHM og Kennarasamband Íslands, sumarlangt og sömdum um nýjan lagagrundvöll fyrir lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna við ríkisvaldið og í kjölfarið einnig við sveitarfélögin. Til varð nýtt kerfi. Ég tel að með því að koma í veg fyrir samþykkt upphaflega lífeyrisfrumvarpsins - sem hefði rústað lífeyrisréttindum opinberra starfsmanna - verja gamla kerfið þannig að öll áunnin réttindi héldust og semja um nýtt kerfi fyrir framtíðina sem byggði á stigakerfi, sömu grunnhugsun og sjóðir á almennum markaði, unnu opinberir starfsmenn einn sinn stærsta sigur enda kostaði átakið gríðarlega vinnu og mikla baráttu sem þúsundir tóku þátt í.

Þegar lífeyrisfrumvarpið, sem byggði á samningi okkar frá sumrinu og haustinu 1996, kom til atkvæðagreiðslu í árslok 1996 hafði verið skotið inn ákvæði um fjárfestingarstefnu sem m.a. gekk út á að lífeyrissjóðum bæri að sækjast eftir hámarksávöxtun en ekki félagslega ábyrgum fjárfestingum eins og við vildum sum. Á Alþingi var ég einn um að styðja ekki þessa lagaklásúlu þegar hún kom endanlega til atkvæðagreiðslu.

En þegar lögin voru borin upp heildstætt samþykkti ég að sjálfsögðu þann breiða grunn sem hið nýja kerfi átti að byggja á og við höfðum samið um. Einhverjir voru andvígir því að að opinberir starfsmenn skyldu áfram búa við lífeyriskerfi með réttindum umfram það sem gerðist á almennum markaði. Sjálfur vildi ég gjarnan jafna réttindin en þá skyldu þau líka jöfnuð upp á við en ekki niður á við!“ skrifar Ögmundur.

mbl.is

Bloggað um fréttina