Segir tilgangslaust að ræða við Íslendinga

Þinghús Evrópusambandsins í Strasbourg.
Þinghús Evrópusambandsins í Strasbourg. Ljósmynd/JPlogan

„Við fordæmum Íslendinga fyrir að bjóða strandríkjunum til Reykjavíkur til frekari viðræðna þegar þeir höfðu engin áform um að ná málamiðlun eða leggja fram raunhæfa lausn á þessari makríldeilu,“ sagði Ian Gatt, framkvæmdastjóri Samtaka skoskra uppsjávarsjómanna (SPFA), í kjölfar þess að viðræður um skiptingu makrílkvótans fyrir árið 2012 sem lauk í Reykjavík í gær skiluðu engri niðurstöðu.

Gatt sagði samkvæmt fréttavefnum Fishnewseu.com að viðræðurnar hefðu verið tilgangslausar og sagði ennfremur ástæðu til þess að velta því fyrir sér hvers vegna Færeyingar væru að mæta til viðræðna um makríldeiluna þegar þeir legðu ekkert af mörkum í viðræðunum, væru þögulir og ætluðu sér greinilega aðeins að nýta sér makrílstofninn aftur í ár með sama hætti og áður.

„Það er deginum ljósara að áframhaldandi viðræður og tillögur að málamiðlunum af hálfu Evrópusambandsins og Noregs eru ekki að fara að stuðla að samningi við Íslendinga og Færeyinga. Nú verður að grípa til refsiaðgerða gegn Íslandi og Færeyjum áður en þeir byrja að veiða makríl í sumar,“ sagði Gatt.

Hann lýsti ennfremur stuðningi við þau ummæli Pat the Cope Gallagher, fulltrúa á Evrópusambandsþinginu, að aðgerðir af hálfu sambandsins ættu að ná til alls sjávarfangs og sjávarafurða ríkja sem stunduðu ósjálfbærar og óábyrgar veiðar úr sameiginlegum fiskistofnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert