Árið 2011 létust 1.985 einstaklingar sem búsettir voru á Íslandi, 998 karlar og 987 konur. Dánartíðni var 6,2 látnir á hverja 1.000 íbúa og lækkaði lítillega frá árinu 2010.
Ungbarnadauði á Íslandi var 0,9 börn af hverjum 1.000 lifandi fæddum árið 2011 en var 2,2 börn af hverjum 1.000 lifandi fæddum árið 2010.
Árið 2011 gátu nýfæddir drengir vænst þess að ná að meðaltali 79,9 ára aldri, en stúlkur 83,6 ára aldri. Á fimm ára tímabili, 2006-2010 var meðalævi karla 79,4 ár en kvenna 83,1 ár. Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofu Íslands.
Ungbarnadauði lægstur á Íslandi meðal Evrópuþjóða
Árið 2010 var ungbarnadauði á Íslandi 2,2 af 1.000 lifandi fæddum. Hvergi í Evrópu var ungbarnadauði jafn lágur og hér árið 2010. Næstir Íslandi komu Finnar en þar var ungbarnadauði 2,3 af 1.000 lifandi fæddum. Annars staðar á Norðurlöndum var ungbarnadauði á bilinu 2,5-3,4. Í Evrópu var ungbarnadauði tíðastur í Tyrklandi eða 13,2 af hverjum 1.000 lifandi fæddum árið 2010.
Íslenskir karlar í þriðja sæti yfir langlífi í Evrópu
Lífslíkur íslenskra karla hafa batnað mjög á undanförnum árum. Frá árinu 2000 hafa þeir bætt við sig rúmlega tveimur árum í meðalævilengd. Árið 2010 var meðalævilengd íslenskra karla 79,5 ár og skipuðu þeir þriðja sætið meðal Evrópuþjóða það ár. Í fyrsta sæti voru karlar í Sviss en þar gátu nýfæddir drengir vænst þess að verða 79,9 ára. Styst er meðalævilengd evrópskra karla í Úkraínu (62,0 ár), Rússlandi (62,8 ár) og Hvíta-Rússlandi (64,7 ár).
Íslenskar konur í níunda sæti
Lengi vel voru lífslíkur íslenskra kvenna hæstar í heiminum en þær hafa dregist nokkuð aftur úr stallsystrum sínum í Evrópu á þessari öld. Ástæðan fyrir því er hraðari aukning ævilengdar í nokkrum Evrópulöndum. Árið 2010 var meðalævilengd íslenskra kvenna 83,5 ár og skipuðu þær níunda sætið meðal Evrópuþjóða. Elstar evrópskra kvenna verða konur á Spáni (85,3 ár), Frakklandi (85,0 ár) og Sviss (84,6 ár). Meðalævilengd evrópskra kvenna er styst í Moldóvu (73,4 ár) og Úkraínu (74,3 ár).