Mikið öryggisleysi í kjölfarið

Hreinsað upp eftir ránið í úraverslun Michelsen á Laugavegi.
Hreinsað upp eftir ránið í úraverslun Michelsen á Laugavegi. Rebekka Líf Albertsdóttir

Meðal þeirra sem komu fyrir dómara við aðalmeðferð vegna úraránsins í Michelsen úrsmiði  voru eigandi og starfsfólk verslunarinnar. Þau lýstu því öll að ránið hefði haft mikið áhrif á þau. Þá óttuðust þau um líf sitt meðan á ráninu stóð.

Fyrstur gaf skýrslu Frank Michelsen, eigandi verslunarinnar. Hann lýsti því að nýbúið var að skúra og opið út þegar mennirnir ruddust inn. „Ég var að vinna þegar ég verð var við skugga koma inn. Þegar ég lít upp horfi ég beint inn í byssuhlaup. Maðurinn öskraði á mig "get down, get down" og ég hélt í fyrstu að þetta væri grín. Ég áttaði mig þó fljótt á að svo var ekki, og sagði öllum að gera allt sem mennirnir sögðu og leggjast niður.“

Hann sagðist hafa heyrt öskur og mikil brothljóð. Þetta hafi þó gengið fljótt yfir, og aðeins tekið um fimmtíu sekúndur allt í allt „en það var heil eilífð á meðan því stóð.“

Um leið og mennirnir voru farnir út úr búðinni þrýsti Frank á neyðarhnapp og lögregla kom á vettvang stuttu síðar.

Frank lýsti því einnig að hann hefði heyrt hvell sem hann hélt að væri skothvellur, en það reyndist ekki rétt enda voru mennirnir með leikfangabyssur. Hann segist ekki þekkja byssur nema úr bíómyndum og að ógnin hafi verið sú sama, þó að um leikfangabyssur hafi verið að ræða. Hann sagðist einnig hafa hugsað út í það þegar hann lá á gólfinu ásamt syni sínum og fleira starfsfólki, að hann væri nú orðinn 55 ára gamall en það mætti ekki skjóta son hans, sem á eins árs gamlan son.

Þegar Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir aðstoðarsaksóknari hjá ríkissaksóknara spurði hvort hann hefði óttast um líf sitt og annarra, sagði Frank svo tvímælalaust vera.

Einnig var hann spurður út í afleiðingar ránsins. Sagði Frank að þetta hefði þau áhrif að hann hrykki við þegar fólk kæmi inn í verslunina með læti, og þá vantreysti hann fólki sem kæmi inn sem ekki hefðii komið áður.

Hugsaði hvort búið væri að skjóta Frank

Sonur Franks, Magnús, kom einnig fyrir dóminn. Hann var að vinna í tölvu á kaffistofu verslunarinnar þegar mennirnir ruddust inn. Hann sagðist ekki hafa séð neitt því hann hefði fljótlega lagst á gólfið og snúið í átt að vegg. En hann hefði heyrt mikil læti, brothljóð og hvelli.

Magnús sagðist ekki hafa upplifað sig í lífshættu en hefði vissulega verið hræddur, enda hefði hann ekki vitað hvað myndi gerast. Hann hefði fundið fyrir vantrú, þ.e. ekki trúað því að þetta væri að gerast. Nú fyndi hann fyrir tortryggni gagnvart fleirum sem kæmu inn í verslunina en áður.

Þá kom fyrir dóminn Sigrún Ragnarsdóttir, starfsmaður verslunarinnar.  Hún sagði að sér hefði liðið hræðilega meðan á ráninu stóð. Hún hefði einnig hugsað til Magnúsar og nýfædds barns hans. Þá hefði hún heyrt háan hvell einnig. „Ég hugsaði með mér hvort væri búið að skjóta Frank á gólfinu og hvort við værum næst.“

Hún sagði eins og aðrir, að tortryggni hefði aukist. „Þegar einhver kemur inn, ég tala nú ekki um þegar það eru ungir menn sem tala ekki íslensku, þá fer maður strax í viðbragðsstöðu. Síðast gerðist það í gær. Þá hugsaði ég með mér hvort hann myndi taka nokkur núna.“

Frank Michelsen í verslun sinni.
Frank Michelsen í verslun sinni. Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert