Glæpasamtök á bak við úraránið

Pawel Jerzy Podburaczynski var fluttur í handjárnum í dómsal.
Pawel Jerzy Podburaczynski var fluttur í handjárnum í dómsal. mbl.is/Sigurgeir

Úraránið í Michelsen úrsmiðum 17. október sl. tók á sig nýja mynd þegar aðalmeðferð í máli ákæruvaldsins gegn tveimur úraræningjunum fór fram í dag, en því var meðal annars haldið fram að maður tengdur pólskum glæpasamtökum hafi skipulagt ránið. Málið var dómtekið á sjöunda tímanum í kvöld.

Mennirnir tveir, Grzegorz Marcin Nowak og Pawel Jerzy Podburaczynski, játaðu báðir aðild sína að ráninu en neituðu að hafa staðið að skipulagningu og fjármögnun þess. Verjandi  Podburaczynski hélt því fram við málflutning, að útilokað væri að mennirnir gætu fjármagnað ránið enda báðir illa staddir fjárhagslega. Hann vildi fremur meina að þeir væru einskonar burðardýr og dæma ætti þá fyrir hlutdeild að ráninu og því til vægari refsingu.

Þegar hefur einn úraræningjanna fjögurra fengið dóm fyrir þátt sinn. Marcin Tomasz Lech hlaut fimm ára fangelsi en hann náðist hér á landi með úrin. Sá réðst þó ekki inn í Michelsen úrsmiði heldur hinir þrír. Nowak og Podburaczynski héldu því fram fyrir dómi í dag að Lech hefði skipulagt ránið og fengið þá til liðs við sig.

Einna athyglisverðast við aðalmeðferðina var þegar Lech gaf skýrslu sem vitni. Þegar réttað var yfir honum í febrúar hélt Lech því fram að Nowak og Podburaczynski hefðu fengið sig til þess að fara með þeim í ferðina. Þeirra hafi verið hugmyndin og skipulagningin en þáttur Lechs hafi verið minnstur.

Í dag bað Lech þá félaga hins vegar afsökunar þessum orðum sínum sem hann sagði röng. Hins vegar gæti hann vel skilið það að þeir hefðu haldið sig hafa skipulagt ránið. „Frá þeirra sjónarhorni getur það hafa litið þannig út vegna þess að í þessu máli var ég milliliður, milli þeirra sem skipulögðu ránið og frömdu það,“ sagði Lech.

Upplýsti ekki um höfuðpaurinn

Framburður Lech hefur tekið miklum stakkaskiptum frá því í febrúar og sagðist hann hafa verið í sambandi við mann sem hafi boðið honum að taka þátt í innbroti á Íslandi. Þetta hafi átt að vera afar einfalt, aðeins að brjóta rúðu í skartgripabúð og taka þau úr sem stillt var upp. Fyrir ferðina átti hann að fá að minnsta kosti fjögur þúsund evrur, jafnvirði um 650 þúsund króna. Hann hafi fengið hjá honum pening til að kaupa flugmiða og bóka hótel.

Saksóknari spurði ítrekað út í þennan umrædda mann, höfuðpaurinn í málinu, en Lech vildi ekki gefa upp nafn hans, sagði hann þekktan glæpamann í heimabæ sínum og óttaðist að fjölskyldu sinni yrði gert mein myndi hann kjafta frá. Spurður hvort hann hefði tengsl við glæpasamtök sagði Lech svo vera. Um væri að ræða hóp manna í bænum sem keyri um á glæsikerrum og vinni ekki hefðbundna vinnu.

Beðinn um að gefa upp nafn samtakanna sagði Lech að þó svo íslenskir glæpamenn kepptust við að nefna hopa sína nafni væri málum öðruvísi farið í Póllandi. Þar bæru glæpasamtök ekki nöfn.

Sjálfur fékk Lech þá Nowak og Podburaczynski til fararinnar. Hins vegar hafi fjórði maðurinn, sem enn gengur laus, Pawel Artur Tyminski, komið inn í skipulagninguna á lokastigum. Höfuðpaurinn hafi viljað hafa sinn mann með í ráðum. „Mér fannst eins og hann ætti að passa upp á mig.“

Þvingaðir til að fremja ránið

Eins og áður sagði var upphaflega áætlunin að brjótast inn í Michelsen úrsmiði í skjóli nætur og stela úrum. Mismunandi skýringar voru gefnar á því hvers vegna horfið var frá þeirri áætlun. Lech sagði sjálfur í febrúar að öryggisbifreið væri við verslunina á kvöldin og því hafi ekki verið talið ráðlagt að brjótast inn. Nowak sagði hins vegar í dag að Lech hefði fengið upplýsingar um að úrin væru ekki aðgengileg á nóttunni.

Hluti af vörn Nowaks og Podburaczynskis er að Lech hafi þá breytt áætluninni og þvingað þá til að fremja ránið. Hann hafi hótað þeim óbeint og þeir ekki þorað öðru en að hlýða. „Það var mjög erfitt fyrir okkur að taka þessa ákvörðun en við vorum hræddir við afleiðingarnar í Póllandi og þess vegna ákváðum við að gera þetta,“ sagði Nowak.

Verjandi Podburaczynskis sagði að Lech hefði stillt honum upp við vegg. Hann hefði tengsl við undirheimana í Póllandi og Podburaczynskis því ekki þorað öðru. „Ákæruvaldinu hefur ekki tekist að sýna fram á annað en að hann hafi verið peð í verknaðinum og ber að miða refsingu hans við það.“

Verjandi Nowaks sagði málið hafa stökkbreyst síðan Lech var dæmdur og með breyttum framburði hans hafi eðli málsins breyst. Um sé að ræða anga af skipulagðri glæpastarfsemi og sé málið nokkuð líkt fíkniefnamálið. Það sé lagskipt og höfuðpaurinn sitji á toppnum á pólskum píramída. Sökum þessa sé ekki hægt að taka dóminn yfir Lech og nota hann til viðmiðunar. „Þeim ber að fá vægari refsingu en Lech, sem hafði milligöngu um að fjármagna og skipuleggja.“

Bílþjófurinn Tyminski

Mennirnir tveir eru einnig ákærðir fyrir að stela fjórum bílum, en tveir þeirra voru notaðir við ránið. Þeir neituðu sök hvað þann ákærulið varðar og sögðust ekki hafa stolið bílunum, þó þeir hafi vitað að þeim yrði stolið. Fékk það stoð í framburði Lech sem sagði að Tyminski hefði komið með sérstaka græju frá Póllandi, sem helst líktist USB-lykli, og notaði hana til þess að opna tilteknar tegundir bíla.

Lech sagðist sjálfur ekki hafa komið að því að stela bílunum né hinir mennirnir. Tyminski hefði bæði stolið þeim og komið þeim fyrir á góðum stöðum til að nota í ráninu.

Eins og áður segir var málið dómtekið á sjöunda tímanum og er dóms að vænta á næstu vikum. Saksóknari í málinu fór fram á að minnsta kosti sömu refsingu og Lech hlaut, þ.e. fimm ára fangelsi, en tiltók nokkrar ástæður sem gætu orðið til refsihækkunar, þar á meðal sakarferil mannanna í Póllandi, en þeir hafa báðir hlotið dóma fyrir innbrot og auðgunarbrot og annar fyrir kynferðisbrot.

Á vetvangi ránsins.
Á vetvangi ránsins. Júlíus Sigurjónsson
Frá blaðamannafundi lögreglunnar þar sem þýfið úr Michelsen-ráninu var opinberað.
Frá blaðamannafundi lögreglunnar þar sem þýfið úr Michelsen-ráninu var opinberað. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert