Taka við 40% af aukningunni

Morgunblaðið/Ómar

Landsvirkjun gerir ráð fyrir nær 20% aukningu í nýtanlegri vatnsorku í virkjuðum vatnsföllum til ársins 2050 vegna aukins afrennslis frá jöklum. Núverandi hönnun virkjana getur aðeins tekið við um 40% af  aukningunni. Verið er að undirbúa breytingar á Búrfellsvirkjun til að nýta aukið rennsli.

Þetta er meðal þess sem kom fram á blaðamamannafundi hjá Veðurstofu Íslands nú í morgun þegar kynnt var ný skýrsla sem unnin var fyrir Norrænu ráðherranefndina um áhrif loftslagsbreytinga  á 21. öld á endurnýjanlega orkugjafa á Norðurlöndunum og í Eystrasaltslöndunum.

Áhrif hlýnunar á Íslandi eru þegar orðin töluverð og aukast eftir því sem líður á öldina. Þau koma ekki síst fram í auknu vatnsrennsli vegna þess að jöklar bráðna hraðar og úrkoma eykst. 

Landsvirkjun er að huga að mögulegum breytingum á fleiri virkjunum en við Búrfell, m.a. á Kárahnjúkavirkjun, en undirbúningur vegna Búrfellsvirkjunar er kominn lengst.

Óli Grétar Blöndal Sveinsson, framkvæmdastjóri þróunarsviðs Landsvirkjunar, sagði að ekki væri hægt að breyta stöðvarhúsi Búrfellsvirkjunar til að nýta aukið rennsli, heldur yrði að reisa nýtt stöðvarhús sem myndi nýta vatnið úr núverandi lóni. Stefnt væri að því að hefja mat á umhverfisáhrifum síðar á þessu ári og að framkvæmdir gætu hafist árið 2014. Áætlaður kostnaður væri um 11 milljarðar. 

Hann tók fram að við hönnun virkjanamannvirkja væri miðað við að nýta 70-80% af vatnsrennsli. Ekki væri hægt að nýta rennslið til fulls.

Skýrsla norrænu ráðherranefndarinnar er afrakstur viðamikils samvinnuverkefnis 30 stofnana og fyrirtækja á Norðurlöndunum og í Eystrasaltsríkjunum sem Veðurstofa Íslands stýrði á árunum 2007-2011. Sérstök áhersla var lögð á að meta áhrif loftslagsbreytinga á nýtingu vatnsorku, vindorku og lífrænna orkugjafa og benda niðurstöður til þess að hlýnunin geti leitt til aukinnar orkuframleiðslu á svæðinu á komandi áratugum. Við aðlögun að breytingunum þarf að huga að öryggi stíflna og annarra hluta orkukerfanna. 

Nánar verður fjallað um málið í Morgunblaðinu í fyrramálið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert