Breyttist með Steingrími

Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins.
Sigurður Ingi Jóhannsson, þingmaður Framsóknarflokksins. mbl.is

Framsóknarflokkurinn átti í ágætu samstarfi við sjávarúvegsráðuneytið vegna nýs kvótafrumvarps í ráðherratíð Jóns Bjarnasonar. Eftir að Steingrímur J. Sigfússon tók við lyklavöldunum lokaði ráðuneytið á það samstarf, að sögn Sigurðar Inga Jóhannssonar, þingmanns Framsóknarflokksins.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra gaf í skyn eftir að frumvarpið var samþykkt á ríkisstjórnarfundi að hún reiknaði með stuðningi framsóknar við frumvarpið.

Sigurður Ingi segir stuðninginn skilyrtan við að komið verði til móts við kröfur framsóknar.

Innihaldi stefnu Framsóknarflokksins

„Vonandi er það rétt hjá forsætisráðherra að frumvarpið innihaldi stefnu Framsóknarflokksins sem við lögðum fram á vorþinginu sem þingsályktunartillögu í fyrra. Og vonandi er það rétt að það sé verið að reyna að ná víðtækri sátt meðal þjóðarinnar og hagsmunaðila.  Það hefur ekkert samráð verið haft við okkur framsóknarmenn við gerð nýja frumvarpsins. Vonandi er það rétt að frumvarp ríkisstjórnarinnar sé byggt á stefnu Framsóknarflokksins. Þar var að finna nýtingarsamninga til 20 ára sem voru framlengjanlegir.

Það snerist einnig um að koma ákvæði um þjóðareign á náttúruauðlindinni inn í stjórnarskrá og síðan eru nokkrar útfærslur á byggðakvótanum og strandveiðunum sem við vildum gera að meiri nýliðunarveiðum og að lokum að það væri lögð áhersla á nýsköpun og aukna arðsemi í greininni. Vonandi er það rétt hjá forsætisráðherra að í nýja frumvarpinu sé að finna allt þetta. Við vorum í ágætu sambandi við ráðuneytið framan af vinnunnar – en ekkert eftir að Steingrímur J. Sigfússon tók við. Ef að frumvarpið sem að Steingrímur er að koma fram með núna byggir á frumvarpi Jóns sem hann lagði fram í lok nóvember að þá getur það vel verið rétt hjá forsætisráðherra að það sé margt í frumvarpinu sem veldur því að það er breiðari stuðningur við það,“ segir Sigurður Ingi og heldur áfram.

Vilja sjá frumvarpið fyrst

„Vonandi er búið að taka inn skynsama punkta inn í frumvarpið og henda frumvarpinu sem var kynnt í fyrravor ... Við lýstum algjörri andstöðu við það. Vonandi hafa stjórnarflokkarnir dregið í land. Það kom fram í umræðum í fyrravor þegar við töluðum fyrir okkar stefnu samtímis og þeirra frumvarp var lagt fram ... að það væri margt í tillögum okkar sem væri vert að skoða og vonandi hafa þeir tekið tillit til þess," segir Sigurður Ingi sem tekur vitanlega fram að hann geti ekki tjáð sig um hvort framsókn styðji nýja frumvarpið fyrr en flokkurinn hefur fengið að sjá það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert