Jörð skelfur við Hellisheiðarvirkjun

Skjálftar sem mælst höfðu á miðnætti.
Skjálftar sem mælst höfðu á miðnætti. Mynd/Veðurstofa Íslands

Mikill fjöldi jarðskjálfta hefur mælst á Hellisheiði í gærkvöldi og fram á nýjan dag, allir í grennd við Hellisheiðarvirkjun. Þetta má sjá á vefsvæði Veðurstofu Íslands. Flestir eru skjálftarnir smáir eða um eða yfir einn að styrk. Sá stærsti sem mældist er upp á 2,8 stig.

Um er að ræða þekkt skjálftasvæði, ekki síst eftir að niðurdæling affallsvatns við Hellisheiðarvirkjun hófst. Af þeim sökum má slá því föstu að rekja megi skjálftavirknina að þessu sinni til slíkra aðgerða.

Virknin verður vegna þess að vatnið streymir um sprungur og misgengi í jörðinni og virkar sem hvati á höggun og hnik í jarðlögum.

mbl.is

Bloggað um fréttina