Hafnar tilboði SUS í mál Jóhönnu

Málið, sem forsætisráðherra dreypti á og boðið var upp í …
Málið, sem forsætisráðherra dreypti á og boðið var upp í útvarpsþættinum Virkum morgnum í morgun.

Sjónlistamiðstöðin á Akureyri hefur hafnað „órausnarlegu tilboði“ sem Samband ungra sjálfstæðismanna gerði í plastmálið sem Jóhanna Sigurðardóttir drakk úr og skildi eftir með rauðri varalitarklessu í stúdíói Rúv. SUS bauð 210.000 kr, tvöfalda þá fjárhæð sem glasið var slegið á í uppboði útvarpsþáttarins Virkra morgna.

Í svarinu, sem Hannes Sigurðsson sjónlistastjóri segir að sé gefið í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi verkafólks á morgun, hafnar hann tilboðinu en þakkar jafnframt ungum sjálfstæðismönnum fyrir að hafa hjálpað sér við „að finna guðseindina, sem leikur um varir Dabba.“ Hannes segist einnig vilja undirstrika, að gefnu tilefni, að allur ágóði af kaupum plastmálsins umdeilda rann óskiptur til Umhyggju - félags til stuðnings langveikum börnum. 

Sjónlistastjórinn segist standa við þá yfirlýsingu sína að plastmálið sé listaverk. Hann segist meira að segja reiðubúinn að ganga skrefinu lengra og fullyrða að um sé að ræða algjört meistaraverk, samboðið hvaða listasafni sem er, þar sem loksins hafi tekist að ná raunverulegu sýnishorni af íslensku þjóðarsálinni. Fram kemur í svarinu að vilji SUS eigna sér málið verði það að lágmarki að borga sem samsvarar mánaðarlaunum seðlabankastjóra eða ritstjóra Morgunblaðsins.

Bréf sjónlistastjórans til SUS má lesa í heild sinni hér.

mbl.is

Bloggað um fréttina