Ögmundur á eftir að gleðjast líka

Grímsstaðir á Fjöllum.
Grímsstaðir á Fjöllum.

„Ég held að hann eigi örugglega eftir að gleðjast þegar frá líður,“ segir Halldór Jóhannsson, talsmaður Huang Nubo á Íslandi, um ummæli Ögmundar Jónassonar innanríkisráðherra sem hefur lýst andstöðu við áform um leigu á Grímsstöðum á Fjöllum.

Ögmundur sagði á heimasíðu sinni um helgina í tilefni af ummælum Huang um að hann væri að ná samningum um málið: „Það kemur okkur öllum við þegar eignarhaldi eða afnotarétti á landi okkar er ráðstafað út fyrir landsteinana. Kínverski auðmaðurinn hrósar happi yfir að vera laus við innanríkisráðherrann. En skyldi hann vera laus við íslenska þjóð? Ég held ekki. Almennt vilja Íslendingar ekki verða hráefnanýlenda fyrir erlenda auðmenn, jafnvel þótt stöku sveitarstjórnarmanni glepjist sýn. Þannig var það líka í Mið-Ameríku þegar bananaekrurnar voru seldar.

Ég held að erlendir auðkýfingar eigi að fara varlega í að hreykja sér á kostnað íslenskra stjórnmálamanna sem vilja sporna gegn því að vaðið sé á skítugum skónum inn á Ísland,“ segir Ögmundur.

„Ég held hann muni nú átta sig á því sem og aðrir þegar þessir samningar um jörðina liggja fyrir að þetta sé í mjög farsælum farvegi og ég held að það sé nánast hægt að segja að hann hafi unnið sigur í málinu því að þessi samningur sem
verið er að vinna núna er mjög í anda þess sem hann var að tala um með landgæðin, að þau yrðu í eigu almennings og ég get ekki séð annað en að við séum að fara nákvæmlega eftir því,“ segir Halldór um þessi orð Ögmundar.

Halldór segir að á næstunni verði stofnað félag á Íslandi sem komi til með að halda utan um leigusamninginn sem fyrirhugað er að gera um Grímsstaði.

mbl.is

Bloggað um fréttina