Fer í gegnum þriðju aðalmeðferðina

Gestur Jónsson, Haukur Þór Haraldsson, skjólstæðingur hans, og Almar Þór …
Gestur Jónsson, Haukur Þór Haraldsson, skjólstæðingur hans, og Almar Þór Möller, aðstoðarmaður Gests. Morgunblaðið/Andri Karl

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur hafnað kröfu verjanda fyrrverandi framkvæmdastjóra rekstrarsviðs Landsbankans um að máli á hendur honum verði vísað frá dómi. Fyrir vikið er ljóst að maðurinn fer í gegnum sína þriðju aðalmeðferð í einu og sama málinu. Það ku vera einsdæmi hér á landi.

Um er að ræða fjárdráttarmál en í því er Haukur Þór Haraldsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri rekstrarsviðs Landsbankans, ákærður fyrir að hafa dregið sér 118.544.950 krónur, andvirði 712.323,94 sterlingspunda, sem hann lét millifæra af innlendum gjaldeyrisreikningi í eigu NBI Holding Ltd., félags á vegum bankans sem Haukur í tengslum við starf sitt var stjórnarmaður í og hafði prókúru fyrir, yfir á eigin bankareikning, en daginn eftir lét Haukur millifæra sömu fjárhæð yfir á annan bankareikning í sinni eigu.

Ákæra var gefin út 19. nóvember 2009 og eftir aðalmeðferð í mars 2010 var Haukur sýknaður. Hæstiréttur ómerkti dóminn og vísaði honum aftur heim í hérað. Eftir aðalmeðferð í júní 2011 var Haukur dæmdur í tveggja ára fangelsi. Hæstiréttur ómerkti dóminn að nýju og vísaði heim í hérað.

Eins og mbl.is greindi frá krafðist Gestur Jónsson, verjandi Hauks Þórs, þess að málinu yrði vísað frá dómi og byggði á því að það sé andstætt reglunni um réttláta málsmeðferð að hann skuli þurfa að sæta aðalmeðferð í héraðsdómi í þriðja sinn. Helgi Magnús Gunnarsson, saksóknari í málinu, sagði hins vegar ekkert segja í lögum um að héraðsdómur geti vísað máli frá vegna þess að Hæstiréttur hefur vísað því aftur til meðferðar í héraði.

Í úrskurði fjölskipaðs héraðsdóms segir að vel megi fallast á með Hauki Þór að mjög bagalegt sé fyrir hann hvernig málinu hafi ítrekað reitt af fyrir dómsólum. Dómurinn fellst hins vegar ekki á það að málsmeðferðin sem stendur fyrir dyrum í þriðja sinn sé ekki innan hæfilegs tíma frá því að ákæran var gefin út í skilningi ákvæðis mannréttindasáttmálans. Því séu ekki lagaskilyrði til að vísa málinu frá dómi.

Úrskurðurinn er ekki kæranlegur til Hæstaréttar og hefst aðalmeðferðin 4. júní næstkomandi.

Þrjátíu klukkustundir í aðalmeðferð

Við málflutning vegna frávísunarkröfunnar sagði Gestur meðal annars, að um fordæmalaust mál væri að ræða hér á landi og líklega í Evrópu. „Mér er næst að halda að þetta sé óþekkt staða. [...] Og þetta er ekki í lagi. Hlutirnir mega ekki ganga svona fyrir sig í réttarríki.“

Haukur hefur þegar setið í gegnum aðalmeðferð í málinu í fimm daga, alls um þrjátíu klukkutíma. Eins og áður má gera ráð fyrir að aðalmeðferðin í byrjun júní standi í tvo daga.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert