Segjast hafa skilað lækkuninni

mbl.is/Friðrik Tryggvason

Hugi Hreiðarsson, markaðsstjóri Atlantsolíu, segir að ef gengi dollars væri það sama í dag og það var um síðustu áramót væri verð á bensíni frá Atlantsolíu 10 kr. lægra en það er í dag.

Skúli Helgason, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi olíufélögin á Alþingi í dag fyrir að vera sein að lækka verð á bensíni, en verð á hráolíu á heimsmarkaði hefur lækkað um 16% það sem af er mánuðinum.

Hugi sagði að dollarinn væri kominn upp fyrir 130 krónur, en hefði verið 126 krónur fyrir einni viku. Þetta hefði mikil áhrif á bensínverð, ekki síður en innkaupsverð.

Hugi sagðist vonast eftir að Atlantsolía myndi lækka verð á bensíni fljótlega ef hráolíuverð heldur áfram að lækka. „Við erum alltaf á tánum,“ sagði Hugi.

Hermann Guðmundsson, forstjóri N1, segir að N1 hafi lækkað verð á bensíni 8 sinnum það sem af er mánuðinum og lækkunin sé 16 krónur frá því þegar verðið var hæst í vor. Hann segir að lækkun á heimsmarkaði á olíu hafi því skilað sér til neytenda.

Hráolíuverð hefur lækkað um 16% í þessum mánuði. Hermann segir fullunna olíu hafa lækkað heldur minna. Lækkunin sé hins vegar umtalsverð og bara í þessari viku hafi heimsmarkaðsverð á bensíni lækkað um 3,8%.

Hermann segir að dollarinn hafi hins vegar verið að hækka gagnvart krónu og það vegi að nokkru leyti upp lækkun á verði á olíu. Hann segist vonast eftir að N1 geti lækkað bensínverð til viðskiptavina sinna á næstunni. Það sé markmiðið að lækka verðið svo að sala á bensíni aukist og fólk fari að keyra meira.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka