Keppa fyrir hönd Íslands með tölvuleik um græna orku

Háskólinn í Reykjavík.
Háskólinn í Reykjavík. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Tölvuleikur um orkunotkun og umhverfismál, sem hópur tölvunarfræðinemenda í Háskólanum í Reykjavík bjó til, er kominn í 10 liða úrslit ImagineCup keppninnar, sem haldin er af tæknirisanum Microsoft og er sú stærsta sinnar tegundar í heiminum.

Í keppninni leggja tölvunarfræðinemar hvaðanæva að úr heiminum fram hugmyndir sínar, en samkvæmt forskrift keppninnar eiga liðin að nota tæknilausnir til að takast á við þau stóru vandamál sem að heiminum steðja.

Hópurinn frá Háskólanum í Reykjavík, sem kallar sig Radiant, bjó til tölvuleikinn Robert´s Quest um orkunotkun og umhverfismál. Leikurinn snýst um íkornann Róbert sem fyrir tilviljun heldur í sendiför til að hreinsa upp menguðu borgina sína með því að útvega henni hreina endurnýtanlega orku.

Með því að spila leikinn lærir ungt fólk að vera meðvitað um umhverfismál og orkunotkun á skemmtilegan og gagnvirkan máta. Leikinn gerðu tölvunarfræðinemendurnir fyrir Windows Phone og xBox.

Í Radiant hópnum frá Háskólanum í Reykjavík eru þeir Axel Örn Sigurðsson,  Haukur Steinn Logason og Sveinn Fannar Kristjánsson og Guðmundur Valur Viðarsson frá Margmiðlunarskólanum en leiðbeinandi þeirra í verkefninu er Daníel Brandur Sigurgeirsson, aðjúnkt við tölvunarfræðideild HR.

Tölvuleikurinn um Róbert hlaut hvatningarverðlaun Microsoft í Hugmyndasamkeppni Háskólans í Reykjavík veturinn 2011-2012, þar sem nemendur unnu út frá þemanu „hvernig getum við bætt heiminn með tölvutækni?“.

Radiant hópur Háskólans í Reykjavík keppir fyrir hönd Íslands í ImagineCup lokakeppninni sem haldin verður í Ástralíu í júlí, þar sem þeir munu halda áfram að fræða fólk um græna orku með aðstoð tölvuleiksins þar sem íkorninn Róbert er í aðalhlutverki.

Ari Kristinn Jónsson, rektor Háskólans í Reykjavík segist vera stoltur af hópnum. „HR hefur lagt áherslu á kennslu sem er bæði sterk bóklega og nátengd raunverulegum og krefjandi verkefnum. Það er því afskaplega ánægjulegt að sjá árangur nemenda okkar sem sýna þarna hvernig vönduð vinnubrögð og sköpunargáfa geta komið þeim í fremstu röð í harðri samkeppni alþjóðlega. Við erum stolt af þeim og þessum árangri og óskum þeim alls hins besta í lokakeppninni. Það er einmitt þetta sem Ísland þarf til að byggja landið upp á sjálfbæran hátt -  vel menntaða og öfluga einstaklinga sem geta skapað ný verðmæti sem eru samkeppnishæf alþjóðlega,“ er haft eftir Ara í tilkynningu.

Ítarlegri upplýsingar um keppnina má finna hér 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert