Sleppa 1.000 lítrum í einu

Ljósmynd/Andrés Birkir Sighvatsson

„Það var svolítill reykur þegar við komum. Að sjá var þetta aðallega á þremur stöðum og við fórum á stærsta blettinn fyrst,“ segir Henning Þór Aðalmundsson, stýrimaður í þyrlusveit Landhelgisgæslu Íslands.

Landhelgisgæslan aðstoðaði slökkvilið höfuðborgarsvæðisins við að slökkva gróðurelda sem brunnu í Áslandi í Hafnarfirði fyrr í dag.

Slökkviliðið var með talsverðan viðbúnað á svæðinu vegna eldsins en erfitt var að aðhafast á slökkvibílum. Var því gripið til þess ráðs að kalla á aðstoð frá Landhelgisgæslunni sem sendi þyrlu á staðinn sem útbúin var sérstökum slökkvibúnaði til verksins.

Henning Þór segir aðgerðina hafa tekist mjög vel enda þyrluáhafnir Gæslunnar vel þjálfaðar í að takast á við fjölbreytt og krefjandi verkefni.

„Þetta gekk alveg ljómandi vel. Við fórum með sjö skjólur á þetta og náðum nánast að slökkva þetta með fimm skjólum. Tvær voru settar á glæður,“ segir Henning Þór en þyrlan sleppir um það bil eitt þúsund lítrum í hverri ferð. 

Eldurinn var í lúpínu og lagði mikinn reyk frá svæðinu sem sást greinilega víða á höfuðborgarsvæðinu.

Hvaleyrarvatn kom sér vel

Þyrlan sótti vatnið sem notað var við slökkvistörfin í Hvaleyrarvatn og segir Henning það hafa komið sér mjög vel að þurfa ekki að fara langar vegalengdir eftir vatni.

„Það hjálpaði til. Ef að vatnið hefði ekki verið nógu djúpt hefðum við þurft að sækja sjó.“ En það hefði einnig þýtt lengri hring því Gæslan flýgur ekki með fulla vatnsfötu yfir byggð. Má því gera ráð fyrir að eldurinn hefði brunnið töluvert lengur.

Vanir menn

Landhelgisgæslan æfir reglulega slökkvistörf úr þyrlu og eru áhafnir þeirra orðnar mjög vel æfðar. „Við þurfum að æfa þetta alltaf reglulega til þess að vita hvað við erum að gera. Flugvirkinn og flugstjórinn tala sig saman um þetta og sleppa á réttum tíma yfir.“

Þyrla Landhelgisgæslunnar var í um 45 mínútur í loftinu vegna brunans.

Ljósmynd/Andrés Birkir Sighvatsson
Ljósmynd/Friðrik S. Einarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert