Hefði hugsanlega fengið innbrotið bætt

Mikilvægt er að fólk kynni sér vel ákvæði tryggingarsamninga.
Mikilvægt er að fólk kynni sér vel ákvæði tryggingarsamninga. mbl.is

Áslaug Ósk Hinriksdóttir varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu fyrr í mánuðinum að brotist var inn til hennar og verðmætum stolið. Hún segist ekki fá krónu frá tryggingafélagi sínu í bætur á grundvelli þess að smárifa hafi verið á glugga sem rífa hafi þurft upp. Áslaug segir frá þessu í færslu á vefsvæði sínu.

Samkvæmt varúðarreglum almannatryggingarlaga þurfa íbúar að tryggja að allir gluggar séu lokaðir og að ekki sé skilið við ólæst íbúðarhús meðan það er mannlaust. Í dæmi Áslaugar var enginn heim þegar innbrotið átti sér stað en samkvæmt núverandi varúðarreglu laga um vátryggingarsamninga er það skýrt brot á reglunni þar sem rifa var á glugga á heimili hennar.  Sé varúðarreglum ekki fylgt getur ábyrgð félagsins fallið niður í heild eða að hluta, sbr. 26. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 30/2004.

Hjá mörgum tryggingarfélögum glata menn bótaréttinum ef fólk skilur eftir opinn glugga, en brotið er misalvarlegt eftir því hversu auðvelt aðgengið er að glugganum.

Til að tryggingafélög geti beitt varúðarreglunni fyrir sig, þurfa að vera orskatengsl á milli innbrotsins og varúðarreglunnar. Ef innbrotsþjófarnir hefðu brotið sér leið inn í íbúð Áslaugar með öðrum hætti, hefði málið horft öðruvísi við, þar sem engin tengsl hefðu verið á milli brotsins og gluggans.

Núverandi vátryggingarlög tóku gildi árið 2004 og samkvæmt þeim er fólk í lakari stöðu ef það skilur vísvitandi eftir opinn glugga eða hurðir.

Fólk getur ávallt skotið málum sínum til úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum, en málskotum til nefndarinnar fjölgar með ári hverju.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert