Fækkuðu fóstrunum um tvö

mbl.is/Arnaldur

Hjónin Paulina Garcia Romero og Friðfinnur Finnbjörnsson sem áttu von á fimmburum og Fréttatíminn hefur sagt frá, eru þakklát fyrir þá hjálp sem þau fengu eftir að hafa sagt sögu sína í blaðinu. Þau komust í samband við fólk sem hefur gengið í gegnum svipaða reynslu og sérfræðinga erlendis sem hjálpuðu þeim að taka þá erfiðu ákvörðun sem þau stóðu frammi fyrir; hvort þau ættu að taka þá miklu áhættu sem felst í fimmburameðgöngu eða fækka fóstrunum eins og íslenskir læknar ráðlögðu. Þau ákváðu að vandlega íhuguðu máli að fækka fóstrunum úr fimm í þrjú. Rætt er við hjónin í Fréttatímanum sem kom út í dag.

„Læknar höfðu ráðlagt okkur að fækka þeim í tvö og ég held að við hefðum ekki treyst okkur til þess að taka ákvörðun um annað nema vegna þeirrar hjálpar sem við fengum frá fólki eftir að hafa sagt sögu okkar í Fréttatímanum,“ segir Friðfinnur.

Hjónin segjast sátt við ákvörðunina að fækka fóstrunum, þó að hún hafi verið mjög erfið. „Þetta var erfiðasta ákvörðun lífs míns,“ segir Paulina. „Ég vissi að þetta var það rétta í stöðunni eftir að hafa ráðfært mig við íslenska móður sem gekk í gegnum svipaða reynslu og þurfti að fækka fóstrum úr fjórum, og eftir að hafa talað við bandarískan sérfræðing í fjölburameðgöngum.“

Fréttatímann má lesa hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert