„Það minnkar ekkert eldurinn“

Sinueldurinn á bænum Hrafnabjörgum í Laugardal í Súðavíkurhreppi minnkar lítið …
Sinueldurinn á bænum Hrafnabjörgum í Laugardal í Súðavíkurhreppi minnkar lítið að sögn ábúanda. mynd/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir

„Það minnkar ekkert eldurinn. Hann er á svæðinu ennþá og það brennur á meðan eitthvað er til að brenna. Það þarf að drepa eldinn,“ segir Sigurjón Samúelsson, bóndi á Hrafnabjörgum í Laugardal í Súðavíkurhreppi þar sem barist hefur verið við sinueld síðan á föstudag.

„Það er búið að bleyta svo mikið hérna fjær vindáttinni, þar sem leggur út á, að það væri möguleiki að færa sig eitthvað nær og reyna að minnka reykinn og eldinn sem er hérna við vatnið,“ segir Sigurjón.

Þarf dælur og slöngur til að vinna á eldinum

„Það er svo örðugt að komast um svæðið og sprauta á það og þarf dælur og slöngur. Þetta er grýtt og það er ekki auðvelt að fara með þung hlöss um svæðið. Þetta er ekki melur eða slíkt. Þetta eru hrísmóar,“ segir Sigurjón.

Eldurinn braust út um klukkan hálftvö á föstudag og hefur nú brunnið á fjórða hektara, að sögn Sigurjóns.

Vatnið þornar hratt upp og eldsmaturinn minnkar lítið

„Þetta liggur niðri í sverðinum og niðri í holum og það kraumar allt þarna undir og þegar er sprautað yfir þetta langar leiðir er þetta ekki nema eins og úði og þornar upp jafnharðan svoleiðis að eldsmaturinn minnkar lítið. En þeir hafa komist fyrir að það breiðist út,“ segir Sigurjón, sem er svartsýnn á að það muni rigna á svæðinu næstu daga.

Sinubruni við Laugabólsvatn.
Sinubruni við Laugabólsvatn. mynd/Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
mbl.is