Fáir víkja fyrir sjúkrabílum

Sjúkrabílar lenda oft í vandræðum í forgangsakstri.
Sjúkrabílar lenda oft í vandræðum í forgangsakstri. Morgunblaðið

Björn Halldórsson, sjúkraflutningamaður á Kópaskeri, telur að of algengt sé að bílstjórar sem mæta sjúkrabílum eða lögreglubílum í forgangsakstri haldi sínum hraða og gefi ekki meirihluta af veginum heldur en venjulega.

„Í fyrrakvöld fór ég í akstur og það voru mjög fáir sem viku vel og hægðu á sér eins og maður vill að þetta sé svo maður sé ekki að taka einhverja óþarfa áhættu. Ég kom tvisvar að biðskyldumerki og þar þurfti ég að stoppa sjúkrabílinn því þeir sem voru á aðalbrautinni gáfu ekki færi á að hleypa manni inn á. Þetta eru mikil óliðlegheit,“ segir Björn sem þarf oft að komast hratt á sjúkrahúsið á Akureyri sem eru um 190 kílómetrar. 

„Það fer eftir ástandi sjúklinganna hvað þeir þola langa bið, en sumir þurfa að komast sem fyrst á sjúkrahús og þá leiðist manni að bíða við biðskyldu einhversstaðar.“

Björn lenti í því í fyrradag að rúta með eftirvagni hleypti honum ekki framúr þegar hann var á sjúkrabílnum í forgangsakstri. Rútan sem var að keyra yfir hámarkshraða hleypti honum ekki framúr fyrr en rútan þurfti að beygja sjálf.

„Öll áhætta sem er óþörf er ekki góð. Við keyrum hraðar en hámarkshraði og ef við þurfum að mæta bíl sem víkur ekki neitt þá höfum við ansi þröngt svæði á þessum hraða sem við erum á,“ segir Björn sem telur þetta vandmeðfarið því oft þegar sjúkrabíll er á eftir bíl og sá bíll bremsar snögglega er oft ekki möguleiki að komast framúr vegna umferðar á móti. Hann telur það skipta miklu máli hvernig bílstjórar haga sér þegar þeir sjá bíl í forgangsakstri, því það skipti höfuðmáli að þetta gangi liðlega fyrir sig.

Hér má sjá myndband um forgangsakstur sem gert var af Umferðarstofu.

mbl.is