Þúfan í jöklinum er íslaus

Þessi mynd var tekin af Þúfunum í Snæfellsjökli um helgina.
Þessi mynd var tekin af Þúfunum í Snæfellsjökli um helgina. Ljósmynd/Haraldur Sigurðsson

Ein af Þúfunum, sem eru hæstu tindar Snæfellsjökuls, er nú snjólaus. Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur telur að þetta sé ef til vill í fyrsta sinn að Þúfan er svo algjörlega afhjúpuð, enda bráðnar jökullinn nú hratt.

Hæstu tindar Snæfellsjökuls eru nefndar Þúfurnar. Sú í miðju er hæst, eða 1446 metrar. Haraldur segir að þegar hann hafi klifið Sæfellsjökul hafi Þúfan nær undantekningalaust verið hulin ís og fönn.

„En þegar ég flaug í þyrlu umhverfis topp Jökulsins hinn 26. ágúst 2012 þá blasti önnur sjón við. Þúfan í miðjunni var nú nær alveg íslaus og jarðlögin komu vel í ljós, eins og kemur fram á seinni myndinni. Ég held að þetta sé ef til vill í fyrsta sinn að Þúfan er svo algjörlega afhjúpuð, enda bráðnar Jökullinn nú hratt.  Nú gefst því tækifæri til að kanna þessi jarðlög og fræðast frekar um gossögu Jökulsins. 

Sennilega eru hér aðallega rauðleit gjall og vikurlög, en ef til vill einnig hraunlög. Lögunum hallar til suðurs, í átt frá stóra gígnum, sem er rétt fyrir norðvestan Þúfurnar. Það eru nokkur áberandi ljós lög í Þúfunni. Það er freistandi að giska á að þau séu ef til vill trakít, en sú bergkvikutegund einkennir stóru sprengigosin þrjú, sem hafa orðið í Snæfellsjökli síðan ísöld lauk.  En nú ber að hætta öllum ágiskunum og bregða sér upp á Jökul til að kanna þetta nánar,“ segir Haraldur á blogsíðu sinni.

mbl.is

Bloggað um fréttina