Hækkun iðgjalds verði valkvæð

Þing ASÍ er haldið á Hilton Nordica í dag.
Þing ASÍ er haldið á Hilton Nordica í dag. Morgunblaðið/Eggert

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, telur vel koma til greina að félagar í lífeyrissjóðunum geti valið um að hækkun á lífeyrisiðgjaldi, sem á að koma til framkvæmda á næstu árum, fari í séreignasjóði.

Þegar Samtök atvinnulífsins og ASÍ gerðu kjarasamning á síðasta ári fylgdi með yfirlýsing um lífeyrismál þar sem mörkuð er sú stefna að hækka skuli iðgjald í lífeyrissjóðum úr 11,5% í 15,5% á árunum 2014-2021. Markmiðið með þessu er að jafna lífeyrisréttinda á almennum markaði við réttindi opinberra starfsmanna.

Verkalýðsfélag Akraness hefur lagt fram tillögu um að hækkun iðgjaldsins um 3,5 prósentustig fari allt í séreignasjóði. 

Gylfi sagði á fundi ASÍ í dag að honum þætti koma til greina að fólk gæti valið um að þessi hækkun iðgjaldsins, sem kemur til framkvæmda á næstu árum, færi í séreignasjóð eða í samtryggingarsjóð.

Vilhjálmur E. Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akranes, sagði að það væri blekking að halda því fram að með hækkun iðgjaldsins væri verið að jafna lífeyrisréttindi félagsmanna ASÍ við lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna. Hann sagði að lægi fyrir að Fjármálaeftirlitið hefði gert kröfu um að iðgjald í lífeyrissjóði ríkisins og sveitarfélaganna yrði hækkað úr 15,5% í 19,5%. Hann sagði það vantaði 500 milljarða í Lífeyrissjóð ríkisstarfsmanna og 50 milljarða í lífeyrissjóðakerfi sveitarsveitarfélaganna.

Guðbrandur Einarsson, hjá Verslunarmannafélagið Suðurnesja, lýsti yfir andstöðu við tillögu Verkalýðsfélags Akraness um að iðgjaldið færi í séreign. Það hefði verið ákveðið í síðustu samningum að iðgjaldið færi í samtrygginguna. Hann spurði þingfulltrúa hvort þeim væri alveg sama um öryrkja sem treysta á samtryggingarsjóðina.

mbl.is