Höfum ekki lengur efni á meðalíbúð

Signý Jóhannesdóttir, varaforseti ASÍ og Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ á ...
Signý Jóhannesdóttir, varaforseti ASÍ og Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ á þingi sambandsins í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þrálát verðbólga og háir vextir valda því að venjuleg meðalfjölskylda hefur ekki lengur efni á að búa í venjulegri meðalíbúð. Þetta sagði Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, á þingi ASÍ sem hófst í dag.

Gylfi sagði að ASÍ hefði valið að bregðast við efnahagshruninu með öðrum hætti en verkalýðshreyfingin víða í Evrópu. Verkalýðshreyfingin hér á landi hafi ekki valið leið átaka og deilna. Hann sagðist gera sér grein fyrir að þetta væri umdeilt. ASÍ ætti hins vegar að takast á við þessa gagnrýni, ræða hana og rýna og bregðast við með málefnalegum hætti

Húsnæðismálin eru í öngstræti

Gylfi sagði að ekki yrði framhjá því litið að húsnæðismál og húsnæðisöryggi félaga ASÍ-félaga væri „í öngstræti“. Hann gagnrýndi þær breytingar sem stjórnmálamenn hefðu gert á húsnæðiskerfinu á síðustu áratugum. „Í dag þegar við erum að glíma við afleiðingar efnahagshrunsins blasir við okkur alvarlegt hrun þessa kerfis. Mikil og þrálát verðbólga hefur keyrt vextina upp í rjáfur og í raun má segja að venjuleg meðalfjölskylda hafi ekki lengur ráð á því að búa í venjulegri meðalíbúð – og þá skiptir engu máli hvort hún leigir hana eða kaupir. Íbúðalánasjóður er í miklum fjárhagsvanda og hefur skákað sig út af húsnæðismarkaðinum með kröfu um meira en 30% álag á þá vexti sem hann fær á markaði – sem þýðir ekkert annað en álag á ungar fjölskyldur sem eru að reyna að koma yfir sig þaki.  Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að við þessu þurfi að bregðast, bæði til skemmri og lengri tíma litið.“

Gylfi sagði að margir hefðu einblínt á það að með því að afnema verðtryggingu muni hagsmunir venjulegs meðaltekju fólks verða tryggðir. „Ég er ekki sammála því, málið er miklu flóknara en svo að það verði leyst á einfaldan hátt, en geri mér jafnframt ljósa grein fyrir því að það hefur vakið mikla reiði og gremju í minn garð og okkar hreyfingar.“

Gylfi sagði að lausnin fælist í raunhæfum tillögum um nýtt fyrirkomulag húsnæðislána sem tryggir okkar fólki bæði lægri vexti og meiri stöðugleika í greiðslubyrði en nú er. „Staðreyndin er að vandinn liggur í mikilli verðbólgu og háum vöxtum en ekki verðtryggingunni sem slíkri. Því hlýtur það að vera eitt af forgangsverkefnum okkar að móta skýra sín og kröfur um hvernig íslenskt samfélag geti losað sig út úr vítahring verðbólgu og hárra vaxta þannig að íslenskt launafólk fái notið sambærilegra kjara og í þeim löndum sem við viljum helst bera okkur saman við.“

Gylfi sagði að Alþýðusambandið hefði lagt í mikla vinnu í það sl. vetur að greina þennan vanda, hvers vegna vextir á Íslandi væru svo háir að við værum 20 árum lengur að endurgreiða venjulegt húsnæði en launafólk í nágrannalöndunum? „Þó mestu muni um stöðugleika þeirra gjaldmiðils, er ljóst að hægt er að ná vöxtum hér á landi verulega niður með meiri festu í stjórn gengis- og peningamála og breyttu fyrirkomulagi almennra húsnæðislána. Það er okkar hlutverk að berjast fyrir slíkum lausnum – lausnum sem lækka vexti okkar félaga í raun og veru!“

„Vitum einfaldlega ekki hvaða kostum við stöndum frammi fyrir“

Gylfi ræddi í ræðu sinni um gengismál og viðræðurnar um aðild að Evrópusambandinu. Hann sagði að veik staða krónunnar væri aftur orðinn örlagavaldur um afkomu okkar og öryggi. Hann ræddi nýlega skýrslu Seðlabankans um valkosti í gengismálum, þ.e. upptaka evru eða króna. „Okkar krafa til gengis- og peningastefnunnar er, að hún leggi grunn að stöðugleika, lágri verðbólgu og lágum vöxtum. Niðurstaða Seðlabankans er sú að því verði vart náð með litlum fljótandi gjaldmiðli.

Vandinn er að það er of snemmt að segja til um hvor þessara leiða við eigum að fara eða getum farið því við vitum einfaldlega ekki hvaða kostum við stöndum frammi fyrir. Því er að mínu viti mikilvægt að ljúka viðræðunum um aðild okkar að ESB og freista þess að ná sem bestum samningi fyrir þjóðina. Þegar slíkur samningur liggur fyrir getum við lagt mat á kosti þess og galla út frá hagsmunum launafólks en á endanum er það þjóðin sem mun eiga síðasta orðið í bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu.

Ég hef haldið því fram að á tímum óvissu og samdráttar er það ekki skynsamlegt að takmarka valkostina, en að sama skapi er alveg ljóst að þjóðin þarf að finna lausn á vanda okkar gengis- og peningamála á allra næstu mánuðum. Lausn sem er hvoru tveggja í senn raunhæf og til þess fallin að auðvelda okkur að ná markmiðum okkar um aukna atvinnu og velferð en geti jafnframt verið mikilvægt veganesti í framtíðarskipan þessara mála.“

Gylfi ítrekaði það sem hann hefur áður sagt að hann teldi skynsamlegt að taka upp fastgengisstefnu. Aðstæður nú minni um margt á þær aðstæður sem voru í kringum 1990 þegar þjóðarsáttarsamningarnir voru gerðir, en þá var gengi krónunnar fest.

mbl.is