Málningarflyksur í Silfru

Snorklað í Silfru á Þingvöllum.
Snorklað í Silfru á Þingvöllum.

„Þetta er í það minnsta eins og hellt hafi verið úr innkaupapoka fullum af hvítum málningarflyksum,“ segir kafari sem var á ferð í Silfru á Þingvöllum í dag en þar hefur málning farið af hvítum tanki sem notaður er sem leikmynd ofan í gjánni. Svo virðist sem þetta hafi byrjað í nótt en kafarinn segir að enn flagni af.

Einar Á.E. Sæmundsen, fræðslufulltrúi þjóðgarðsins, segir að ekki sé um varanlegan skaða að ræða. „Það er eins og gerðist stundum í þjóðgarðinum, að það eru ruslapokar sem detta um koll og þá þarf að tína það rusl saman. Þeir brugðust strax við og eru að vinna í því að þrífa þetta upp.“ Hann bætir við að hann hafi ekki séð þetta sjálfur en muni skoða aðstæður á morgun.

Fyrirtækið Pegasus sem starfar að framleiðslu kvikmynda og auglýsinga ásamt því að aðstoða erlend fyrirtæki er með leyfi frá þjóðgarðinum til að mynda í Silfru. Snorri Þórisson, forstjóri Pegasus, sagðist í samtali við mbl.is hafa heyrt af þessu en ekki séð þetta sjálfur. „Það er náttúrlega mottó hjá flestum sem starfa í þessum bransa að skilja við hluti eins og þeir komu að þeim og það verður gert núna, ekki spurning.“

Þegar kafarinn, sem vill ekki láta nafns síns getið, er spurður að því hvort hann telji að það sé mikið mál að þrífa flyksurnar upp segir hann: „Ég myndi halda það, einhverja sundlaugaryksugu eða eitthvert slíkt tól hlýtur að þurfa. Ef menn ætla að tína þetta upp brotna þær bara í fleiri hluti og þó svo að þarna sé rólegur straumur í gegn þá er það straumur og sumar af þessum flyksum eru komnar út í Þingvallavatn. Ég held að það sé nánast vonlaust að þrífa þetta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina